Síðasta prinsessa Íslands 75 ára

Margrét Þórhildur, er hláturmild kona og þykir traustur leiðtogi.
Margrét Þórhildur, er hláturmild kona og þykir traustur leiðtogi. AFP

Einn vinsælasti þjóðhöfðingi heims fagnar í dag afmæli sínu. Þegar hún fæddist var raunar ekki ætlunin að hennar hátign Margrethe II, sem við Íslendingar þekkjum sem Margréti Þórhildi Danadrottningu, tæki við krúnunni en á þeim 75 árum sem síðan eru liðin hefur ýmislegt breyst.

Margrét Alexandrine Þórhildur Ingrid, eins og hún heitir fullu nafni, fæddist 16. apríl 1940. Viku áður hafði Þýskaland ráðist inn í Danmörku og lagt landið undir sig á aðeins sex klukkustundum og samkvæmt DR var Margréti lýst sem ljósglætu í myrkri tíð sem fylgdi hernámi nasistanna.

Afi Margrétar, Kristján X, ríkti yfir Íslandi til ársins 1944. Margrét hlaut millinafnið Þórhildur sem vísun í tengsl dönsku krúnunnar við landið en systir hennar, Benedikte, sem fæddist í apríl 1944, hlaut ekki slíkt nafn enda hafði Alþingi þá þegar ályktað um að slíta stjórnmálasambandi við Dani og stofna lýðveldi. Margrét Þórhildur var því síðasta prinsessa Íslands.

Faðir Margrétar, Friðrik IX, tók við krúnunni af föður sínum við andlát hans árið 1947. Sex árum síðar, þegar Margrét var 13 ára gömul, var bundinn formlegur endir á áhyggjulausa æsku hennar þegar hlutverk hennar í lífinu varð ljóst.

13 ára ríkiserfingi

Árið 1953 þótti ljóst að Friðrik IX myndi ekki geta af sér son. Hann átti þá þrjár dætur, Margréti, Benedikte og Anne Marie sem fæddist árið 1946. Samkvæmt lögum um ríkiserfingjann varð þjóðhöfðingi Danmerkur að vera karlmaður og raunar hafði kona ekki ríkt yfir landinu síðan Margrét Valdimarsdóttir, eða Margrét I, ríkti frá 1375 til 1412 á dögum Kalmarsambandsins. Friðrik breytti lögunum og gerði Margréti Þórhildi að krónprinsessu.

Á eftirstríðsárunum þurfti Danmörk að finna taktinn á ný eftir langa hersetu og líkt og víðar fylgdi þeim umleitunum ákveðin uppreisn gegn hefðum og venjum, þar á meðal gegn kynjahlutverkum. Samkvæmt DR var þessi hugarfarsbreyting ein af ástæðunum fyrir því að almenningur var afar hlynntur breytingunni á lögunum um ríkiserfingjann. Margrét fékk þó ekki að anda að sér þessari menningarbyltingu enda þurfti hún enn að lúta hefðum krúnunnar og var hún að miklu leiti lokuð af frá umheiminum, og þá sérstaklega karlpeningnum í æsku.

Margrét var glæsileg þar sem hún veifaði til þegna sinna …
Margrét var glæsileg þar sem hún veifaði til þegna sinna í dag. AFP

Prinsessur mega ekki pipra

Allt fram til níu ára aldurs hlaut prinsessan menntun sína í Amalíuborg þar sem lífverðir, skreyttir bjarnarskinni, gættu hennar og sex skólasystra hennar á sama aldri.

Hún gekk í stúlknaskóla í innri Kaupmannahöfn fram að fermingu en flutti þá í heimavistarskóla í suðaustur Englandi í eitt ár, en sá var einnig aðeins ætlaður stúlkum.

Í þessa tíð máttu prinsessur þó alls ekki pipra. Til þess að tryggja að Margrét kynni að umgangast hitt kynið ákvað Ingrid drottning því að halda danstíma á heimili þeirra með 11 öðrum stúlkum og 12 drengjum.

„Við áttum að læra dansa hinna fullorðnu og á sama tíma átti þetta að setja mig rólega inn í hvernig maður kynnist undum mönnum. Ég var eiginlega ekki búin að uppgötva daður. Ég veit ekki hvort aðrir voru eins siðsamir en ég fattaði ekki neitt,“ segir drottningin í bók Helle Bygums, Margrethe.

Menntaskólaárunum eyddi Margrét aftur bakvið luktar dyr í Amalíuborg. Þar var settur á fót sérstakur einkaskóli þar sem kennarar úr ýmsum menntaskólum Kaupmannahafnar kenndu henni og vinkonu hennar Birgitta Juel. Þær útskrifuðust árið 1959 og fengu rauða stúdentshúfu á kollinn, sem nýmála-stúdentar.

Margrét klæddist rauðu á 75 ára afmæliskvöldverðinum.
Margrét klæddist rauðu á 75 ára afmæliskvöldverðinum. AFP

Venjulegur stúdent

Rétt eins og karlkyns fyrirrennarar sínir þurfti hin verðandi drottning að kynnast herþjónustu. Faðir hennar hafði verið í danska sjóhernum og hafði húðflúrin til að sanna það. Kristján X, afi hennar, minnti einnig daglega á bakgrunn sinn í lífvarðasveitinni með því að ríða í gegnum Kaupmannahöfn í fullum herskrúða. Krónprinsessan tók sína menntun hinsvegar út í flughernum, fljótlega eftir stúdentspróf. Í millitíðinni fékk Margrét þó að kynnast hefðbundnara lífi sem háskólanemi, m.a. við Háskólann í Árósum.

Í Árósum bjó Margrét á stúdentagarði, nánar tiltekið garði 9, herbergi 402, í Háskólagarðinum í Árósum, þar sem hún deildi eldhúsi, þvottaðstöðu og ýmsum öðrum vistarverum með öðrum íbúum, rétt eins og hver annar stúdent.

Tímarnir hafa breyst nokkuð síðan þá því elsti sonur Margrétar, Friðrik krónprins, lærði einnig í Árósum en bjó þá í Marselisborgarhöll og var fylgt í hvert fótmál af lífvörðum.

Margrét lauk aldrei háskólamenntun sinni en grúskaði þó í ýmsum fögum s.s. stjórnmálafræði, heimspeki og fornleifafræði. Það síðastnefnda hafði sérstaka þýðingu fyrir Margréti sem hefur fullyrt að hefðu aðstæður hennar verið aðrar hefði hún lagt fagið fyrir sig.

Drottningin var umkringd fjölskyldu sinni þegar hún heilsaði þegnum sínum …
Drottningin var umkringd fjölskyldu sinni þegar hún heilsaði þegnum sínum í morgun. AFP

Fyrsta og síðasta fyrsta stefnumótið

Yngsta systir Margrétar, Anne-Marie, trúlofaðist hinum gríska prins Konstantín árið 1963 og hafði danskan þá eitt miklu púðri í kenningar um hvern Margrét myndi velja sér fyrir mann.

Það var þó fyrst árið 1965 að hin verðandi drottning kynntist franska diplómatanum Henri de Monpezat í London. En rétt eins og hún skyldi ekki daðrið í danstímanum þegar hún var 14 áttaði hún sig ekki á þeim áhuga sem hinn franski vonbiðill sýndi henni. Þau hittust þó aftur ári síðar í brúðkaupi sameiginlegrar vinkonu og þá varð ekki aftur snúið. Í kjölfarið fór Margrét á fyrsta stefnumót lífs síns, þá 26 ára gömul.

„Hann bauð mér í hádegismat. Ég hafði aldrei borðað hádegismat áður með einhverjum á þennan hátt, ég var ein úti með manni!“ segir drottningin í ævisögu Henriks prins, Enegænger, eftir Stéphanie Surrugues.

„Ég gat hreint ekki borðað matinn, ég var fullkomlega...ég meina, ég hafði algjörlega misst matarlystina.“

Sama ár og fyrsta stefnumótið fór fram trúlofaðist parið og gengu þau í hjónaband þann 10.júní 1967 en við það tilefni var nafni Henri breytt í Henrik. 11 mánuðum síðar kom Friðrik prins í heiminn.

Margrét Þórhildur og Ólafur Ragnar Grímsson glugga saman í bækur …
Margrét Þórhildur og Ólafur Ragnar Grímsson glugga saman í bækur sem þeim voru færðar í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Golli

Stórreykinga- og listamaður

18 ára gömul tók Margrét sæti í ríkisráði Danmerkur. Ráðið hittist u.þb. 15 sinnum á ári og er skipað ráðherrum landsins, þjóðhöfðingja og erfingja dönsku krúnunnar. Krónprinsessan Margrét stakk nokkuð í stúf við aðra meðlimi ríkisráðsins sem voru lengi framan af eldri, jakkafataklæddir karlmenn en sjálf segist hún ekki verið taugaóstyrk við hlið föður síns heldur aðeins þegar hún þurfti að stýra fundunum í fjarveru hans.

Friðrik IX lést þann 14. Janúar 1972. Margrét tók við krúnunni daginn eftir á svölum Kristjánsborgarhallar.

Sem þjóðhöfðingi Danmerkur þarf Margrét m.a. að staðfesta þau lög sem danska þingið setur, gefur umboð til myndunar ríkisstjórnar og heldur reglulega fundi með forsætisráðherra Danmerkur. Hennar helsta hlutverk er að koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar á ýmsum alþjóðlegum viðburðum en hún hefur jafnframt nýtt fylgi sitt til þess að styðja af alúð við listgreinar og ýmiskonar góðgerðarstarfsemi.

Margrét hefur mikinn áhuga á listum og þykir sjálf lunkinn myndlistamaður. Hefur hún haldið margar opinberar sýningar á verkum sínum en á fyrri árum notaðist hún við dulnefnið Ingahild Grathmer. Snemma á áttunda áratuginum var hún hvött til að senda teikningar sínar til J.R.R. Tolkien undir dulnefni sínu og hreyfst hann svo af að þær voru notaðar í danskri útgáfu Hringadróttinssögu. Þá hefur Margrét einnig hannað búninga fyrir konunglega danska ballettinn og föt á sig sjálfa.

Margrét er þekkt fyrir að vera stórreykinga manneskja. Ein helsta áramótahefð Dana er að setjast við sjónvarpið og hlíða á drottninguna og á árum áður var hún jafnan með sígarettu við höndina á meðan hún ávarpaði þegna sína. Í nóvember 2006 gaf Margrét hinsvegar út yfirlýsingu þar sem fram kom að í framtíðinni hygðist hún aðeins reykja í einrúmi.

Margrét ásamt eiginmanni sínum.
Margrét ásamt eiginmanni sínum. AFP

Drekkur ekki dús

Margrét hélt upp á 40 ára krýningarafmæli sitt árið 2012 og er hún sá sitjandi þjóðhöfðingi norðurlandanna sem lengst hefur ríkt.

Í gær bauð hún til veislu í tilefni af afmæli sínu þar sem hún var mærð af vinum og fjölskyldu og ekki síst öðrum þjóðarleiðtogum.

„Þér hefur alltaf tekist að lifa eftir eigin einkunnarorðum um að lifa í takt við tímann án þess að vera þræll hans,“ sagði Friðrik krónprins í ræðu til móður sinnar. Þú hefur innsýn, vitsmuni og tilfinningu og skilning á nútíma okkar.“

Margir eru sammála Friðriki um þessi orð enda þykir Margrét Þórhildur í góðum tengslum við þegna sína. Hún er þó ekki hrædd við að minna á hefðirnar þegar svo ber undir og höfðu Danir afar gaman að þegar fréttamanni varð á að gleyma að þéra hennar hátign á blaðamannafundi í aðdraganda afmælisins.

„Fyrirgefðu, nú vil ég ekki vera mikil tepra,“ sagði Margrét Þórhildur þegar hún greip brosandi fram í fyrir blaðamanninum. „En ég held ekki að við höfum verið saman í skóla. Ég held ekki að við séum dús.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert