Merki um vaxandi „rasisma“ í Evrópu

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, er ósáttur við ályktun Evrópuþingsins um …
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, er ósáttur við ályktun Evrópuþingsins um þjóðarmorð á Armenum. AFP

Ályktun sem Evrópuþingið samþykkti þar sem Tyrkir eru hvattir til að viðurkenna dráp þeirra á Armenum sem þjóðarmorð er merki um vaxandi „rasisma“ í Evrópu að mati Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands. Hann fordæmir ályktun Evrópuþingsins.

Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu ályktun á miðvikudag þar sem Tyrkir voru hvattir til að nota aldarafmæli fjöldamorða þeirra á Armenum árið 1915 sem tilefni til að viðurkenna að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Armenar segja að 1,5 milljónir þeirra hafi verið drepnir af herjum Ottómanveldisins gagngert til að útrýma þeim í Anatólíu, Asíuhluta Tyrklands.

Tyrkir segja hins vegar að hundruð þúsund Tyrkja og Armena hafi fallið þegar hersveitir Ottómanveldisins börðust við her rússneska keisaraveldisins um yfirráð yfir austurhluta Anatólíu.

Davutoglu sagði í dag að í ályktuninni væri litið fram hjá þjáningum múslímskra Tyrkja í fyrri heimsstyrjöldinni og hætta væri á að hún hvetti til haturs í garð annarra trúarhópa en kristinna.

„Þetta mál er ekki lengur bundið við samskipti Tyrkja og Armena. Það er ný birtingarmynd rasisma í Evrópu,“ sagði forsætisráðherrann við fjölmiðlamenn.

Hann sagði einnig að fjöldi öfgahægriflokka ættu fulltrúa á Evrópuþinginu og þar væru ákvarðanir teknar á „kæruleysislegan“ hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert