Sá á Facebook að barninu var rænt

John Truong brá heldur betur þegar hann sá að barnið …
John Truong brá heldur betur þegar hann sá að barnið sem auglýst var eftir á Facebook, var barnið sem lá í rúmi hans. Stilla/mbl.is

John Truong brá heldur betur í brún þegar hann sá tilkynningu um týnt barn á Facebook og áttaði sig á því að um var að ræða barn í hans umsjá. Í ljós kom að systir hans hafði rænt barninu, en faðir þess er kærasti systurinnar.

Truong, frá Des Moines í Washington, var að borða morgunmat þegar hann skráði sig inn á Facebook og sá svokallaða „Amber Alert“; tilkynningu um barn sem er saknað. Hann vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið, þar sem barnið leit nákvæmlega eins út og barn sem lá í rúminu hans.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Washington sagði móðir drengsins að hún hefði verið heimsótt af föðurömmu hans og systur Truong, Alyssu Chang. Í samtali við ABC sagði lögregluþjónninn Mike Graddon að konurnar hefðu yfirbugað móðurina með rafbyssu, bundið hana og flutt í annað húsnæði.

Þar var hún bundin úti í bílskúr, á meðan konurnar fóru með barnið inn í hús og hringdu í Truong og báðu hann að passa. Móðurinni tókst að losa sig og hringdi í ættingja, og að lokum lögreglu.

Lögregla segir um flókið fjölskyldumál að ræða, en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvað konunum gekk til.

Truong sagði í samtali við Komo TV í Seattle að drengurinn hefði verið góður. „Hann grét ekki mikið eða neitt. Hann naut félagsskapar hundarins og félagsskapar barnanna minna. Allt virtist í frábæru lagi og svo er ég allt í einu að borða morgunmat og þetta kemur í ljós.“

Hann sagðist enn í áfalli yfir gjörðum systur sinnar. Hún hefur verið ákærð fyrir mannrán, líkamsárás og frelsissviptingu. Amman gaf sig fram við lögreglu og var yfirheyrð í nokkrar klukkustundir, samkvæmt Komo TV.

Drengurinn er kominn aftur í hendur móður sinnar, en það ber að þakka Amber-tilkynningunni sem datt inn á Facebook. Um er að ræða samstarfsverkefni milli samfélagsmiðilsins og National Center for Missing and Exploited Children.

The Independent sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert