Sáu lækni reyna að bjarga börnunum

Ungur drengur situr á sjúkrarúmi á heilsugæslustöð í Sarmin, þorpi …
Ungur drengur situr á sjúkrarúmi á heilsugæslustöð í Sarmin, þorpi suður af borginni Idlib í Sýrlandi. Myndin er tekin 17. mars er klórgasárásin var gerð. AFP

Fulltrúar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna grétu er þeim var sýnt myndskeið af afleiðingum klórgasárásar sem talin er hafa verið gerð í norðvesturhluta Sýrlands í síðasta mánuði. Á myndbandinu má sjá lækni reyna að bjarga lífi þriggja ungra barna. Honum tókst það ekki. Börnin voru öll undir fjögurra ára aldri.

Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, Samantha Power, sagði að fundur ráðsins hefði verið „tilfinningaþrunginn“ og bætti við að þeir sem hefðu staðið að árásinni yrði dregnir til ábyrgðar.

Sýrlensk stjórnvöld harðneita að þau beri ábyrgð á árásinni sem átti sér stað í nágrenni borgarinnar Idlib. Sýrlenskir læknar hafa staðfest frásögn af því sem gerðist í árásinni þann 16. mars. Þeir segja m.a. að heyrst hafi í þyrlum fljúga yfir þorpið Sarmin. Í kjölfarið hafi fundist megn klórlykt og í kjölfarið hafi fjöldi fólks komið á sjúkrahúsið og átt erfitt með andardrátt.

Á myndbandinu má sjá læknana gera örvæntingarfulla tilraun til að lífga við þrjú börn á aldrinum 1-3 ára. Einnig voru gerðar lífgunartilraunir á ömmu barnanna og foreldrum þeirra, segir í frétt BBC um málið.

Forseti sýrlensk-ameríska læknafélagsins, sem sótti fund öryggisráðsins, segir að margir fulltrúar hafi sagt að OPCW, stofnun sem rannsakar notkun efnavopna, hefði átt að gera ítarlega rannsókn er málið kom upp.

„Ef það var þurrt auga í salnum þá sá ég það ekki,“ sagði Samantha Power, fulltrúi Bandaríkjanna, eftir fundinn. Hún segir að gagna sé nú safnað til að komast að því hver beri ábyrgð á tilræðinu.

Árásin á þorpið Sarmin var gerð aðeins fáum dögum eftir að öryggisráðið fordæmdi notkun efnavopna í stríðinu í Sýrlandi og hótaði því að beita hernaðaraðgerðum ef því yrði haldið áfram.

Fulltrúar Bandaríkjanna og fleiri ríkja í öryggisráðinu hafa oftsinnis sakað stjórn Bashar al-Assads forseta Sýrlands um að beita efnavopnum í stríðinu. Þeir segja m.a. að sýrlenski herinn sé sá eini á svæðinu sem noti þyrlur, en í þeim mátti heyra yfir Sarmin áður en fólk tók að veikjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert