Stakk föðurinn til að verja móðurina

Wikipedia/Contributor

Karlmaður er á gjörgæsludeild á sjúkrahúsi í Vín höfuðborg Austurríkis eftir að 11 ára sonur hans stakk hann í bakið með hnífi. Það gerði drengurinn í þeim tilgangi að verja móður sína sem faðir hans hafði ráðist á og sært með hnífi.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.at að atburðurinn hafi átt sér stað í gærkvöldi á heimili fólksins. Maðurinn, sem er 57 ára gamall, hafði ráðist á eiginkonu sína. Konan flýði inn í stofu íbúðarinnar og læsti að sér en maðurinn braut niður hurðina og ráðist á hana. Drengurinn reyndi á meðan að koma í veg fyrir að móðir hans yrði fyrir ofbeldi.

Maðurinn greip þá hníf og stakk eiginkonu sína í höfuðið og hálsinn. Drengurinn greip þá annan hníf og stakk föður sinn nokkrum sinnum í bakið til þess að verja móður sína. Mæðginunum tókst síðan að flýja yfir til nágrannafólks og hringja á lögregluna. Þrátt fyrir alvarleg meiðsl er konan, sem er 34 ára, ekki í lífhættu segir í fréttinni.

Sjálfur hljóp maðurinn út úr húsinu og í almenningsgarð við hlið þess og féll þar til jarðar. Hann var í kjölfarið handtekinn og fluttur á sjúkrahús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert