„Meira, miklu meira þarf til“

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu
Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu AFP

Grísk stjórnvöld þurfa að leggja miklu meira á sig til þess að hægt verði að ná samkomulagi um skuldavanda Grikklands svo alþjóðlegir lánardrottnar landsins fallist á áframhaldandi lánveitingar til þess. Þetta sagði Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, við fjölmiðla í dag samkvæmt frétt AFP. Grískir ráðamenn yrðu ennfremur að bregðast hratt við.

Draghi sagði að þær tillögur sem grísk stjórnvöld hefðu til þessa lagt fram væru væru ekki ásættanlegar. „Meira, miklu meira þarf til og það liggur á því,“ sagði hann þar sem hann var staddur í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, á vorfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Við viljum öll að Grikkland nái árangri. Leiðin til þess er í höndum grísku ríkisstjórnarinnar.“

Grikkir skortir tilfinnanlega fjármuni til þess að standa við afborgarnir af skuldbindingum sínum við alþjóðlega lánardrottna sína. Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópska seðlabankann. Fyrir utan rekstur ríkisins. Stórar afborganir eru framundan og alls óvíst hvort Grikkir geti staðið við þær. Takist þeim það ekki gæti það á endanum leitt til greiðsluþrots gríska ríkisins og í framhaldinu að þeir yrðu að yfirgefa evrusvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert