Dularfullur sjúkdómur í Nígeríu

Sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig þann 13. apríl á …
Sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig þann 13. apríl á þessu ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dularfullur sjúkdómur geisar nú í Nígeríu og hefur leitt til dauða 18 manns að sögn stjórnvalda í landinu. Hann gerði fyrst vart við sig í síðustu viku og eru einkenni hans sjóntruflanir og höfuðverkur.

„23 eru veikir og eru 18 látnir,“ segir Dayo Adeyanju, heilbrigðisfulltrúi Ondo-sýslunnar, í samtali við AFP.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar segir að aðeins hafi liðið einn dagur frá því að einkennin gerðu vart við sig áður en fólkið lést.

Vísindamenn segja að ekki sé um ebólu að ræða, eða aðra svipaða veirusýkingu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin rannsakar nú málið og hefur staðfest upplýsingar nígerískra stjórnvalda.

„Einkenni sjúkdómsins eru höfuðverkur, sjóntruflanir og meðvitundarleysi áður en fólk lætur lífið um 24 klukkustundum seinna,“ segir Tarik Jasarevic, fulltrúi stofnunarinnar.

Sjúkdómurinn greindist fyrst 13. apríl síðastliðinn. 

Sjá frétt Sky-news.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert