Kona féll ofan af ljónsstyttu

mbl.is/Hjörtur

Tæplega tvítug kona slasaðist illa á Trafalgar-torgi í London, höfuðborg Bretlands, í gær þegar hún féll ofan af bronsstyttu af ljóni við minnismerkið um Horatio Nelson flotaforingja. Fjórar styttur af ljónum eru við minnismerkið og eiga ferðamenn það til að klifra upp á þær.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að konan hafi orðið fyrir höfuðmeiðslum við fallið en stytturnar eru rúmir þrír metrar á hæð. Sjúkraþyrla var kölluð til og þegar gert hafði verið að meiðslum konunnar á staðnum var flogið með hana á sjúkrahús.

Deilur hafa staðið um það hvort banna eigi fólki að klifra upp á ljónastytturnar. Þeir sem eru fylgjandi slíku banni segja að ferðamenn hafi valdið skemmdum á þeim en andstæðingar slíks banns segja á móti að það yrði gríðarlega óvinsælt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert