Kveikti í eiginkonu sinni

Mikil mótmæli gegn heiðursmorðum hafa verið haldin í landinu.
Mikil mótmæli gegn heiðursmorðum hafa verið haldin í landinu. AFP

Pakistanskir feðgar hafa verið handteknir fyrir að hafa myrt eiginkonu sonarins, en þeir kveiktu í henni fyrir að hafa yfirgefið húsið án hans leyfis. Er þetta nýjasta svokallaða heiðursmorðið í landinu.

Maðurinn, Muhammad Siddique, varð reiður þegar hann komst að því að eiginkona hans, hin 25 ára gamla Shabana Bibi, hefði heimsótt systur sína án þess að spyrja hann fyrst að því hvort hún mætti fara út. Hann og faðir hans réðust því á Bibi og gengu alvarlega í skrokk á henni áður en þeir helltu yfir hana bensíni og kveiktu svo í henni. 

Bibi brann alvarlega á 80 prósentum líkama síns og lést svo af sárum sínum í gær. Hún hafði verið gift Siddique í þrjú ár, en á þeim tíma hafði hún orðið fyrir síendurteknu ofbeldi af hálfu hans fyrir að geta ekki eignast börn. 

„Við höfum handtekið eiginmanninn og tengdaföðurinn og ákært þá fyrir morð og hryðjuverk,“ sagði lögreglustjórinn Rai Zameer-ul-Haq í samtali við AFP fréttastofuna. Er yfirleitt ákært fyrir hryðjuverk í málum sem þessum til að flýta lagaferlinu.

Hundruð kvenna í Pakistan eru myrtar af eiginmönnum sínum eða ættingjum á ári hverju með ofbeldi, í nafni þess að halda á lofti heiðri fjölskyldunnar. Samkvæmt frétt AFP hafa yfir þrjú þúsund konur verið myrtar í slíkum árásum síðan 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert