Þóttist vera tannlæknir í heilt ár

Konan dró meðal annars tennur úr fólki.
Konan dró meðal annars tennur úr fólki. mbl.is/Árni Sæberg

Bandarísk kona var handtekin á fimmtudag fyrir að hafa þóst vera tannlæknir á stofu í New York í upp undir heilt ár og framkvæmt aðgerðir á fólki án þess að hafa nokkurn tímann öðlast réttindi til þess.

Konan, sem heitir Valbona Yzeiraj og er 45 ára gömul, kallaði sjálfa sig dr. Val og framkvæmdi meðal annars deyfingar og rótarfyllingar og dró tennur úr fólki.

Konan var skrifstofustjóri á tannlæknastofu dr. Jeffrey Schoengold í New York, en í hvert skipti sem hann þurfti að bregða sér frá fór hún í læknaslopp og þóttist starfa sem tannlæknir á stofunni að sögn saksóknara. Þá bókaði hún fólk í tíma hjá sér þegar hún vissi að Schoengold yrði ekki á svæðinu, og bauð því jafnframt afslátt ef það borgaði með peningum.

Tannlækninn fór að gruna að eitthvað væri í gangi þegar sjúklingar fóru að koma til baka með kvartanir yfir tannlæknaþjónustu sem hann hafði aldrei framkvæmt. Sumir urðu veikir, og einn fékk mjög slæma sýkingu í munninn. Í kjölfarið var Yzeiraj rekin, en hún hafði einnig reynt að stela peningum frá stofunni.

Yzeiraj stendur nú frammi fyrir nokkrum ákærum og gæti átt yfir höfði sér sjö ára fangelsisdóm ef hún verður fundin sek. Hún neitaði þó fyrir dómi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert