Átti erfitt með að tyggja dýrið

Konan var hálfnuð með borgarann þegar hún fann kakkalakkann.
Konan var hálfnuð með borgarann þegar hún fann kakkalakkann. AFP

Skyndibitarisinn McDonald's hefur játað að hafa fengið vitneskju um ásakanir nýsjálenskrar konu, sem segir að hún hafi fundið hálfétinn kakkalakka í hamborgara sem hún keypti á laugardag.

Að sögn Annah Sophia Stevenson fór hún heim með borgarann og var hálfnuð með hann þegar hún kom auga á kakkalakkann.

„Iðrin héngu út og það var stórt gat í honum miðjum,“ sagði hinn 26 ára förðunarfræðingur. „Ég var að reyna að bíta tönnunum gegnum hann. Ég var búin að tyggja hann í nokkurn tíma. Ég hélt að þetta væri brjóskkennt kjöt,“ sagði hún.

Stevenson kvartaði ekki við matsölustaðinn heldur birti hún myndir á Facebook og sagði að atvikið hefði vakið með henni ógeðfelldar tilfinningar.

Talsmaður McDonald's sagði að sérleyfishafinn í bænum Blenheim hefði sett sig í samband við Stevenson um leið og hann hafði spurnir af málinu. Hann sagði að hamborgarinn og aðskotahluturinn hefðu verið sóttir í þeim tilgangi að gera á þeim rannsóknir, en að Stevenson hefði síðan óskað eftir því að fá borgarann til baka og það flækti málið.

Talsmaðurinn sagði að heilbrigðiseftirlitsmenn hefðu heimsótt viðkomandi útibú í dag og ekki gert neinar athugasemdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert