Íhaldsmenn ósammála um aðferðir

John Major
John Major

John Major, fyrrverandi forsætisráðherra, segir hætt við því að komist Verkamannaflokkurinn til valda í Bretlandi eftir þingkosningarnar í maí, muni leiðtogi flokksins, Ed Miliband, sæta pólitískum afarkostum dag hvern af hálfu Skoska þjóðarflokksins, SNP.

Samkvæmt Guardian mun Major taka heilshugar undir málflutning David Cameron forsætisráðherra í dag, en síðarnefndi hefur ítrekað varað við samstarfi Verkamannaflokksins og SNP.

Major barðist gegn áætlunum Verkamannaflokksins um skoskt þing í aðdraganda kosninganna 1997.

„Að 16 dögum liðnum munu íbúar Bretlands kjósa næstu ríkisstjórn. Valið er einfalt: kýst þú flokkinn sem stóð fyrir efnahagslegum glundroða, eða flokkinn sem leiddi okkur úr ógöngunum?“ mun Major segja í ræðu í dag.

Sumir flokksbræðra Major segja Íhaldsmenn hins vegar tefla á tvær hættur þegar þeir tala upp SNP í þeirri von að flokkurinn valdi Verkamannaflokknum verulegri skráveifu í Skotlandi.

Þetta hefur Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra, tekið undir.

Steel lávarður, fyrrverandi leiðtogi Frjálslynda flokksins, sem nú er Frjálslyndi demókrataflokkurinn, segir líklegast að Verkamannaflokkurinn myndi minnihlutastjórn án formlegrar aðkomu SNP. Miliband hefur tekið skýrt fram að hann muni ekki ganga til samninga við þjóðarflokkinn. Sama gildir um Cameron.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert