Vilja að hann játi syndir sínar

Í dag hefjast réttarhöld yfir hinum 93 ára Oskar Gröning, sem eitt sinn hafði það starf að taka við eigum fanga sem fluttir voru í útrýmingarbúðirnar Auschwitz. Hann hefur verið ákærður fyrir að hafa átt aðild að morðum 300.000 fórnarlamba Helfararinnar.

Gröning hefur verið kallaður „bókhaldari Auschwitz“ en réttarhöldin yfir honum þykja að stórum hluta táknræn, þar sem yfirvöld í Þýskalandi gera nú lokatilraun til að sækja eftirlifandi gerendur til saka. Fáir eru enn á lífi.

Af 6.500 meðlimum SS sveitanna sem störfuðu í útrýmingarbúðum nasista hafa aðeins 43 sætt ákæru. Af þeim voru 25 dæmdir í fangelsi en aðrir sýknaðir.

Það þykir óvenjulegt hversu opinn Gröning hefur verið varðandi tíma sinn í Auschwitz, sem hann hefur lýst bæði í ævisögu sinni og viðtölum. Hann hefur m.a. tjáð sig um hryllinginn sem hann varð vitni að, sem og hvernig hann hefur fylgt honum alla lífsleiðina.

Gröning hefur hins vegar alla tíð haldið því fram að hafa verið „lítið tannhjól í vélinni“ og segist saklaus af þeim glæpum sem hann hefur verið ákærður fyrir.

Nokkrir þeirra sem lifðu vistina í útrýmingarbúðunum, og munu bera vitni gegn Gröning, vilja ekkert frekar en að hann viðurkenni að hafa verið virkur þátttakandi í því sem þar fór fram. Gröning, sem er fyrrverandi bankastarfsmaður, gerðist sjálfboðaliði í SS þegar hann var 20 ára gamall.

„Ég vill að hann gangist við því fyrir dóminum að hann átti sig á því hvað það þýðir að hann var í Auschwitz yfirhöfuð, hvað þá að hann tók líklega farangurinn af einhverjum þeirra 49 ættingja minna sem voru myrtir þar,“ sagði hin 90 ára Eva Fahidi í gær.

Fahidi var send til Auschwitz sem táningur og sá móður sína og systur síðast á lestarpallinum við Auschwitz-Birkenau.

Ítarlega frétt um réttarhöldin yfir Gröning er að finna hjá Guardian.

Frétt mbl.is: „Ég var þar“

Oskar Gröning segist saklaus.
Oskar Gröning segist saklaus. AFP
Gröning í dómsal.
Gröning í dómsal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert