Ótrúlegt sjónarspil í tvíburagosi

AFP

Í gær gaus Calbuco eldfjallið í suðurhluta Chile í fyrsta skipti í hálfa öld og lýsti upp næturhimininn með eldglæringum og hrauni. Í nótt gaus það aftur. Eins mikilfengleg og elgos eru hafa þau þó slæmar afleiðingar fyrir íbúa í kringum fjallið og hafa um 5.000 manns nú verið fluttir á brott.

Yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi, sent her á staðinn og rým allt svæði í 21 kílómeters radíus í kringum fjallið eftir það sem kallað hefur verið tvíburagos en fyrra gosið átti sér stað að kvöldi miðvikudags og það næsta snemma fimmtudags fyrir sólarupprás.

Eldfjallið gaus síðast fyrir 54 árum og hafði ekki sýnt merki um aukna virkni. Gríðarleg öskuský hafa lamað flugumferð og borist allt til suður Argentínu þar sem fólk í skíðabænum Bariloche hefur verið varað við því að fara út fyrir hússins dyr vegna mengunnar.

AFP

Ekki er vitað um nein slys á fólki vegna gosanna. Í fyrstu var óttast umm afdrif 21 árs klifurgarps en hann rataði til byggða óskaddaður.

Fyrsta gosið stóð yfir í um 90 mínútur og spúðu um 10 kílómetra öskuskýi upp í himininn sem varð bleikur og gulur í því sem sólin settist. Sjö klukkustundum síðar gaus Calbuco á ný og í þetta sinn spýttist hraunkvika upp í himininn og blá-hvítleitar eldingar skáru í gegnum hraunskúfinn sem lýsti upp næturhimininn. Jarðfræði- og námuþjónusta Chile hefur varað við því að þriðja gosið gæti fylgt í kjölfarið.

AFP

Aðeins mínútu fyrirvari

Öskulagið sem þekur svæðið allt í kringum fjallið er víða allt að því meter á hæð og hafa þök húsa gefið undan sökum þyngslanna. Íbúar hafa mokað öskunni af þökunum og borgarstarfsmenn hafa rutt vegi í gegnum öskuna með stórum vörubifreiðum.

Michelle Bachelet, forseti landsins, heimsótti svæðið í dag ásamt fjölda ráðherra og sagði hún ekki hægt að sjá fyrir hvernig ástandið myndi þróast. „Askan gæti haft slæm áhrif á uppskeru, dýrafóður, brýr, vegi, vinnuvenjur fólks, ferðamennsku og sérstaklega heilsu,“ sagði hún þegar hún kallaði eftir því að íbúar gengju með grímur sem yfirvöld dreifðu í Chile og Argentínu.

Skjálftamælar gáfu ekki til kynna að nein breyting væri á aðstæðum í fjallinu fyrr en örfáum mínútum fyrir fyrra gosið. Raunar hefur verið fylgst með öðru fjalli í Chile, Villarrica, um nokkurt skeið vegna aukinnar virkni. Þann 3.mars síðastliðinn hikstaði Villarrica upp stuttri en leiftrandi sprengingu af ösku og hraunkviku. Um 90 virk eldfjöll eru í landinu.

AFP

Móðursýki og spenna

Sumir á svæðinu urðu skelfingu lostnir en aðrir heilluðust af sjónarspilinu þegar Calbuco gaus.

„Sprengingin olli samstundis móðursýki meðal íbúa. Við trúðum ekki því sem við sáum,“ sagði Marcia Claro, kaffihúsaeigandi í Puerto Varas, 38 þúsund manna bæ við Llanquihue vatn við rætur fjallsins. 

AFP

Bæjarstjóri Puerto Montt sem liggur nálægt fjallinu og er stoppistöð fyrir ferðamenn á leið inn á hið vinsæla ferðamannasvæði Patagonia sagði að íbúar hefðu verið afar afar hræddir á sama tíma og viðvararnir bárust um að bráðinn snjór og ís gæti orðið til þess að nálægar ár flæddu yfir bakka sína.

Annar íbúi, Alvaro Ascencio, sagði hinsvegar í samtali við AFP að fólk væri frekar spennt en hrædd og færi í hrönnum að vatninu til að taka myndir af fjallinu sem er í 40 kílómetra fjarlægð.

Sjónarspilið hreint út sagt magnað.
Sjónarspilið hreint út sagt magnað. AFP
Eldglæringarnar sáust úr mikilli fjarlægð.
Eldglæringarnar sáust úr mikilli fjarlægð. AFP
Bláleitar eldingar lýstu upp himininn.
Bláleitar eldingar lýstu upp himininn. AFP
Skýið sem reis upp að kvöldi miðvikudags var ekki síður …
Skýið sem reis upp að kvöldi miðvikudags var ekki síður mikilfenglegt. AFP
Eldgosið minnir mest á listaverk.
Eldgosið minnir mest á listaverk. AFP
Rauðglóandi himinn tók á móti öskunni.
Rauðglóandi himinn tók á móti öskunni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert