Sat saklaus í fangelsi í 36 ár

Michael Hanline sat saklaus inni í 36 ár.
Michael Hanline sat saklaus inni í 36 ár. Skjáskot af vef CBS

Bandarískur maður sem hafði setið saklaus í fangelsi í Kaliforníu í 36 ár hefur loks verið látinn laus, en allar ákærur gegn honum voru felldar niður í gær.

Hinn 69 ára gamli Michael Hanline, er sá fangi sem hefur setið lengst saklaus inni í sögu Kaliforníuríkis, en lögmenn hans höfðu unnið í 15 ár að því að fá hann lausan og fá saksóknara til að endurmeta gögn málsins.

Hanline var dæmdur fyrir morð árið 1980, en DNA sem fannst á vettvangi glæpsins var ekki úr honum, og málið var byggt á mjög takmörkuðum sönnunargögnum. „Hann er hundrað prósent saklaus,“ sagði Justin Brooks, framkvæmdastjóri California Innocence Project í gær.

„Mér líður vel,“ sagði Hanline þegar hann kom út úr dómsalnum í gær. „Vonandi verður allt eins og það var áður.“

Hanline var ákærður fyrir morð á vini sínum, J.T. McGarry, árið 1978. Saksóknarar sögðu Hanline og vin hans hafa rænt McGarry, skotið hann og komið líkinu fyrir við hlið hraðbrautar í Ventura. Töldu þeir að Hanline hefði verið afbrýðisamur þar sem hann og McGarry voru ástfangnir af sömu konu.

Þáverandi kærasta Hanline, Mary Bischoff, varð helsta vitni málsins en hún sagði Hanline hafa yfirgefið heimilið með byssu í hönd kvöldið sem morðið var framið, og komið heim þakinn mold. Hanline sagðist hins vegar hafa verið að vinna við mótorhjól sitt allt kvöldið, fyrir utan að hafa yfirgefið til að ná í bjór. Árið 1980 var hann fundinn sekur um morð af fyrstu gráðu og dæmdur í lífstíðarfangelsi. 

„Þegar ég var fyrst handtekinn hélt ég að það tæki kannski eitt til tvö ár að fá úr þessu skorið, en ekki 36,“ sagði hann. „Ég trúði því aldrei að ég myndi eyða restinni af ævi minni í fangelsi, en maður minn, 36 ár eru langur, langur tími.“

Spurður um hvað hann langaði að gera nú þegar hann er laus sagðist hann vilja fara að veiða, rúnta um á mótorhjóli sínu, stunda garðyrkju og eyða tíma með eiginkonu sinni, Sandy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert