„Ég er ekki værðarfljóð“

Hin kóreyska Lee Yong-Soo var hneppt í kynlífsþrældóm og neydd til að þjónusta japanska hermenn. 70 árum seinna fer hún aðeins fram á eitt: afsökunarbeiðni.

„Ég mun ekki deyja fyrr en við leysum úr þessu máli,“ sagði hin 87 ára gamla Lee við fréttamenn utan við bandaríska þingið þar sem forsætisráherra Japan mun halda ræðu á miðvikudag. „Ég er heiðvirð dóttir Kóreu, ég er ekki værðarfljóð (e. comfort woman),“ sagði Lee.

Lee bar vitni fyrir þinginu árið 2007 um hrottafengna upplifun sína sem ein þúsunda „værðarfljóða“ en það voru konurnar sem neyddar voru til að starfa í vændishúsum ætluðum hermönnum í seinniheimstyrjöldinni.

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, þykir hallast að þjóðernishyggju en hann mun næsta miðvikudag verða fyrsti forsætisráðherra Japans til að halda ræðu á bandaríska þinginu. Af því tilefni fara hópar mótmælenda fram á að hann bæti fyrir glæpi fyrri ríkisstjórna með yfirgripsmeiri hætti en gert hefur verið.

Árið 1995 gaf þáverandi forsætisráðherra Japans, Tomiichi Murayama, út formlega afsökunarbeiðni á þeim „skaða og þjáningum“ sem Japan hefði ollið sem nýlenduherra.

Búist er við að Abe gefi út nýja afsökunarbeiðni með aukinni áherslu á ákveðin svæði og þá sérstaklega á Suður-Kóreu og Kína.

Lee Yong-Soo er sögð ein af aðeins 53 eftirlifandi værðarfljóðum af um eða yfir 200 þúsund, mörgum þeirra frá Kóreu.

Lee Yong-Soo man vel eftir því þegar hún var gripin af heimili sínu árið 1944 af japönskum hermönnum, þá aðeins 16 ára gömul. Hún lifði af skelfilega bátsferð til Taívan en þar tók við kynlífsþrælkun í japönsku vændishúsi í tvö ár þar sem henni var nauðgað og hún barin auk þess sem hún var pínd með raflosti. „Ég var næstum dáin,“ segir Lee sem segir markmið sitt vera „að standa fyrir framan Abe sem lifandi vitni að sögunni.“

Skilaboð hennar eru einföld: „Opnaðu augun vel og horfðu á mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert