Hefði átt að hitta lækni strax

Í myndbandinu sést hvernig Gray er fluttur í lögreglubíl eftir …
Í myndbandinu sést hvernig Gray er fluttur í lögreglubíl eftir að hafa verið handtekinn. AFP

Lögreglan í Baltimore í Bandaríkjunum hefur viðurkennt að Freddie Gray, svartur maður sem lést af völdum áverka sem hann hlaut við handtöku, hefði átt að komast strax undir læknishendur þegar hann var handtekinn.

Gray var 25 ára að aldri þegar hann lést sl. sunnudag eftir að hafa skaðast á mænu þegar hann var handtekinn.

Mótmælendur hafa fjölmennt á hverju kvöldi fyrir utan lögreglustöð í Baltimore og segja skipuleggjendur mótmælanna að von sé á um það bil 10 þúsund manns í mótmælagöngu sem fer fram á morgun í miðborg Baltimore.

Á blaðamannafundi í dag sagði lögreglustjórinn Kevin Davis að þrír lögregluþjónar, einn á tveimur jafnfljótum og tveir á reiðhjólum, hefðu veitt Gray og öðrum manni eftirför um nokkurn tíma hinn 12. apríl áður en þeir handtóku hann.

Á myndbandsupptöku sést hvernig lögreglumennirnir skelltu honum á jörðina við handtökuna með tilheyrandi sársaukaöskri Gray.

„Í hreinskilni sagt hefði átt að færa hann strax undir læknishendur. Sem var ekki gert,“ sagði Davis en hann fer yfir rannsókn á málinu.

Gray var því næst færður í lögreglubíl sem stoppaði á nokkrum stöðum á leiðinni en þar beið hans sjúkrabíll. Hann lést sjö dögum síðar með mikinn mænuskaða fyrir neðan háls að sögn lögfræðinga hans og fjölskyldu.

Lítið er vitað um hvað gerðist í bílferðinni í lögreglubílnum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var Gray, sem átti að mæta fyrir dóm í vikunni vegna fyrra fíkniefnabrots, ekki í bílbelti í lögreglubílnum.

Sex lögregluþjónum hefur verið vikið úr starfi tímabundið á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert