Lögreglan grunuð um nauðgun og fjárkúgun

AFP

Þrír lögreglumenn í Mumbai voru handteknir í dag grunaðir um að hafa nauðgað fyrirsætu á lögreglustöð og síðan reynt að kúga úr henni fé.

Lögreglan hefur einnig handtekið þrjá til viðbótar vegna málsins en 29 ára gömul fyrirsæta segir að lögreglumennirnir hafi ruðst inn í bifreið hennar þar sem hún var að yfirgefa hótel í borginni þann 3. apríl sl. 

Aðstoðarlögreglustjóri borgarinnar,  Dhananjay Kulkarni, segir að konan hafi greint frá því að mennirnir hafi ekið með hana á lögreglustöð og nauðgað henni. Að því loknu reyndu þeir að kúga út úr henni háa fjárhæð, tæplega 1,1 milljón króna.

Kulkarni segir að vel verði að vanda til rannsóknarinnar bæði vegna alvarleika brotanna og aðkomu lögreglunnar. Hann segir að allt bendi til þess að ásakanir um fjárkúgun eigi við rök að styðjast en ekki hafi fengist staðfest að konunni hafi verið nauðgað. Lögreglumennirnir hafi ekki átt að vera við hótelið en unnið sé að rannsókn málsins.

Samkvæmt indverskum fjölmiðlum á vinur konunnar að hafa farið á lögreglustöðina og greitt fjárhæðina fyrir hana eftir að hafa farið á milli hraðbanka til þess að safna nægu fé. 

Fyrirsætan sendi lögreglustjóranum í Mumbai smáskilaboð tveimur dögum síðar og greindi honum frá árásinni. Í kjölfarið tók hann á móti henni og hún greindi honum frá ofbeldinu sem hún varð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert