Ofbeldi, ótti og drukknun

Mohammed Ali Malek (hvítklæddur) var eins og hver annar flóttamaður …
Mohammed Ali Malek (hvítklæddur) var eins og hver annar flóttamaður er hann kom til Sikileyjar eftir slysið. Hann er talinn hafa verið skipstjóri fiskibátsins. AFP

Nú er talið að um 920 manns hafi látist er fiskibátur sem átti að flytja flóttafólk frá Líbíu til Ítalíu sökk í Miðjarðarhafinu um síðustu helgi. Búið er að ákæra skipstjórann, Túnisann Mohammed Ali Malek, fyrir morð. Hann er einnig ákærður fyrir að bera ábyrgð á því að báturinn hvolfdi og fyrir smygl á fólki.

Malek mætti fyrir dóm í morgun. Hann var einn þeirra 28 sem komst lífs af úr slysinu. Ítölsk yfirvöld segja að Malek beri ábyrgð á því að hafa siglt bátnum á flutningaskip sem komið var á vettvang til að bjarga fólkinu sem var um borð í fiskibátnum. Hann var aðeins um 20 m að lengd og ofhlaðinn. Talið er að mörg hundruð manns hafi verið lokuð inni neðan þilja er slysið var. Það fólk átti aldrei neina von um að komast lífs af.

Malek neitar sök. Lögmaður hans segir að Malek hafi verið fórnarlamb slyssins eins og hinir sem voru um borð. Hann segir að Malek hafi sjálfur verið á flótta og borgað fyrir pláss um borð í bátnum.

Annar maður, 25 ára gamall Sýrlendingur, hefur einnig verið handtekinn grunaður um að bera ábyrgð á slysinu. Ítölsk yfirvöld segja hann hafa verið í áhöfn bátsins. Hann neitar einnig sök.

Fólk sem lifði slysið af mun í dag gefa vitnisburð sinn við fyrirtöku málsins fyrir dómi.

Saksóknarinn á Ítalíu segir að um 1.200 flóttamenn hafi hafist við í vörugeymslu í borginni Tripoli í Líbíu í um mánuð áður en fiskibáturinn lagði úr höfn. Hann segir að fólkið hafi þurft að þola mjög slæma meðferð, m.a. barsmíðar. Einhverjir lifðu þá dvöl ekki af. 

Þá segir saksóknarinn að á meðan ferðinni stóð hafi einum ungum dreng verið kastað fyrir borð því hann hafi staðið upp án leyfis um borð í gúmmíbát sem var að flytja flóttafólk yfir í fiskibátinn.

Ítölsk yfirvöld halda því fram að um milljón manna bíði í Líbíu eftir að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu.

Frétt Sky.

Mohammed Ali Malek og Mahmud Bikhit eru sagðir bera ábyrgð …
Mohammed Ali Malek og Mahmud Bikhit eru sagðir bera ábyrgð á því að átt í þúsund flóttamenn létu lífið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert