Keisaraskurðir í tísku

Yfirvöld í Brasilíu segjast vilja stemma stigu við „faraldri“ fæðinga með keisaraskurði. Yfir helmingur allra fæðinga í Brasilíu fara nú  fram með keisaraskurði en það er hæsta hlutfall sem finnst í heiminum.

Ástæður þess að konur velja að fara í keisaraskurð eru margar. Sumar hafa áhyggjur af því að náttúruleg fæðing kunni að fara illa með leggangaop þeirra og leiða til varanlegra breytinga í kynlífi en aðrar velja slíka leið vegna ráðlegginga lækna sem fá meira borgað fyrir slíkar aðgerðir en venjulegar fæðingar.

56% fæðinga í landinu á sér stað með keisaraskurði og hlutfallið er 85% sé litið til fæðinga á einkareknum heilbrigðisstofnunum.

„Faraldur fæðinga með keisaraskurði er óásættanlegur og koma þarf fram við hann sem almennt heilbrigðisvandamál,“ segir heilbrigðisráðherra ríkisins, Arthur Chioro. Heilbrigðisráðuneytið hefur varað við því að aðgerðin auki líkurnar á öndunarerfiðleikum hjá börnum um 120 prósent og þrefaldi líkurnar á því að móðirin látist. Hafa yfirvöld hrundið af stað átaki þar sem læknum er veitt aðhald og verðandi mæðrum er ráðið frá því að fara í keisaraskurð reynist það ekki nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum. Samkvæmt lögum mun læknum á einkastofnunum framvegis skylt að upplýsa verðandi mæður um hætturnar sem fylgja valkvæðum keisaraskurði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert