Eftirskjálftarnir vekja ótta

Samgöngur hafa víða farið úr skorðum í Nepal.
Samgöngur hafa víða farið úr skorðum í Nepal. AFP

Kröftugir eftirskjálftar hafa riðið yfir Nepal í dag og vakið ótta meðal þeirra sem lifðu stóra skjálfta gærdagsins af. Tölur yfir fjölda látinna hækka stöðugt en nú er talið að 2.400 manns hafi látið lífið.

Björgunarhundar leita í rústunum í höfuðborginni Katmandú en það var gífurlega mikið tjón vegna skjálftans. Starfsfólk sjúkrahúsa hefur neyðst til þess að flýja út úr byggingunum af ótta við að þær hrynji. Rafmagn er óstöðugt í landinu og þá eru samgöngu í lamasessi.

Fleiri snjóflóð féllu á Everest í dag þegar stór eftirskjálfti reið yfir. Þá höfðu þyrlur nýlega lokið við að flytja slasaða úr búðunum. Búið er að flytja 52 úr búðunum en þeir sem geta gengið niður munu gera það.

Talið er að um 150 manns hafi verið í Dharahara-turninum þegar skjálftinn varð í gærmorgun. Búið er að finna þrjátíu lík í rústunum og stendur leit enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert