„Jörðin hefur skolfið í alla nótt“

Björgunarfólk frá Kína lagði af stað frá Peking til Nepal …
Björgunarfólk frá Kína lagði af stað frá Peking til Nepal í dag. AFP

Íbúar Katmandú, höfuðborg Nepal, vöknuðu skelfingu lostnir í morgun við eftirskjálfta. Sá stærsti mældist 6,7 stig. Margir dvöldu utandyra í nótt af ótta við að hús þeirra myndu hrynja. Rúmlega 2.000 manns eru látnir og um 4.600 manns slasaðir.

„Við sváfum ekkert í nótt, hvernig ættum við að geta það. Jörðin hefur skolfið í alla nótt. Við biðjum bara að þessu ljúki og við getum farið heim á ný,“ sagði Nina Shrestha, 34 ára bankastarfsmaður í Nepal, sem dvaldi utandyra í nótt.

Spítalar eru yfirfullir af slösuðu fólki. „Við höfum hlúð að mörgum frá því í gær, aðallega börnum. Flestir sjúklinganna eru með höfuðáverka eða brotin bein,“ segir Samir Acharya, læknir á sjúkrahúsi í Nepal.

Búið er að setja upp tjöld fyrir utan sjúkrahúsið til að anna eftirspurn. Sumir sjúklinganna kjósa að dvelja í tjöldunum utandyra af ótta við að byggingin hrynji.

Veðurspár gera ráð fyrir rigningu í Katmandú í dag.

„Ég lagði til hliðar í mörg ár til að klifra Everest. Mér finnst eins og fjallið sé að segja að það eigi ekki að klífa það núna. Of mikil tilviljun að sjá þetta tvö ár í röð,“ segir George Foulsham í samtali við AFP en hann ætlaði klífa fjallið. 

Frétt mbl.is: Stærsti eftirskjálftinn til þessa

Björgunarmaður tilbúinn að leggja af stað til Nepal frá Bandaríkjunum.
Björgunarmaður tilbúinn að leggja af stað til Nepal frá Bandaríkjunum. AFP
Ástandið er ekki gott í Katmandú, höfuðborg Nepal.
Ástandið er ekki gott í Katmandú, höfuðborg Nepal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert