Þýskalandsforseti þakklátur Bretum

Fólk stendur við skilti þar sem stendur „Arbeit macht frei
Fólk stendur við skilti þar sem stendur „Arbeit macht frei" eða „vinnan frelsar þig“ við inngang fangabúða nasista, Sachsenhausen. AFP

Forseti Þýskalands er þakklátur Bretum fyrir að hafa frelsað fangabúðirnar Bergen-Belsen fyrir 70 árum. Hann segir Breta hafa stuðlað að endurreisn mannlegs eðlis í landinu en þetta kom fram í máli hans á athöfn sem fór fram í dag í Þýskalandi þar sem 70 ár eru liðin frá því að búðirnar voru frelsaðar.

Um 70 eftirlifendur fangabúðanna sóttu athöfnina í dag þar sem fórnarlamba var minnst en um 50 þúsundir manna létu lífið í fangabúðunum á árunum 1941 til 1945, þar á meðal Anna Frank.

Joachim Gauck Þýskalandsforseti sagði frelsun fangabúðanna hafa markað upphafið að nýju tímabili í landinu. „Fólk sá að samúð mannsins getur lærst,“ sagði hann og bætti við að Bretar hafi ákveðið að fara ekki að fordæmi nasista sem tóku yfir Evrópulönd, þar sem þeir fóru ránshendi um og hnepptu fólk í þrældóm.

Hann vitnaði í Ben Barnett, breskan hershöfðingja sem var með þeim fyrstu til þess að koma í búðirnar eftir frelsun þeirra. Barnett sagði að það væri ekki hægt að koma því í orð sem hann varð vitni að.

„Þessu verður engan veginn lýst með orðum. Það eru engin orð í enskri tungu sem geta gefið raunverulega innsýn inn í hryllinginn,“ sagði Barnett á sínum tíma.

Í dag eru einnig 70 ár liðin frá því að bandarískir hermenn frelsuðu Flossenbuerg-fangabúðirnar þar sem um 30 þúsund fangar létu lífið.

Joachim Gauck, Þýskalandsforseti.
Joachim Gauck, Þýskalandsforseti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert