25 þúsund Jemenar fluttir heim

Jemenar hliðhollir Huthi-hreyfingunni taka þátt í mótmælum gegn loftárásum Sádi …
Jemenar hliðhollir Huthi-hreyfingunni taka þátt í mótmælum gegn loftárásum Sádi Arabíu og bandamanna í Sanaa í dag. AFP

Þúsundir Jemena eru strandaglópar víðsvegar um heim vegna átakanna sem nú standa yfir í heimalandi þeirra, en að sögn samgöngumálaráðherra landsins stendur til að flytja þá heim á allra næstu dögum.

Bader Ba-Salama, sem er í útlegð í Sádi Arabíu, sagði í dag að frá og með fimmtudeginum myndu tvær flugvélar fljúga daglega til höfuðborgarinnar Sanaa og sú þriðja til Sayun, austar í landinu.

Samkvæmt Ba-Salama og öðrum ráðherrum í útlegð, eru um 25.000 Jemenar fastir víðsvegar um heim, og er gert ráð fyrir að hægt verði að flytja 500 til baka á hverjum degi. Í frétt AFP um málið kemur ekki fram í hvaða löndum Jemenarnir eru flestir.

Forseti Jemen, Abedrabbo Mansour Hadi, neyddist til að flýja borgina Aden í kjölfar framsóknar liðsmanna Huthi-samtakanna, sem njóta stuðnings hersveita sem eru hliðhollar Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta.

26. mars sl. hóf bandalag undir forystu Sádi Arabíu loftárásir gegn Huthi-liðum. Spurður að því hvort aðstæður væru þannig að óhætt væri að flytja námsmenn, ferðamenn og aðra Jemena heim, sagði Ba-Salama að önnur svæði en Aden væru „friðsælli“.

Þrátt fyrir þetta birtu ráðherrar ríkistjórnarinnar gögn í dag þar sem fram kemur að 70% Jemena séu undir fátæktamörkum, að 12 milljónir mann byggju við fæðuskort og að verð á helstu  matvælum hefði hækkað um 40-110%.

Þá kom einnig fram í gögnunum að 365 þúsund heimili hefðu verið eyðilögð. Gögnin voru kynnt á blaðamannafundi í sendiráði Jemen í Sádi Arabíu.

Jemensk börn bíða þess að geta fyllt vatnsbrúsa í Sanaa …
Jemensk börn bíða þess að geta fyllt vatnsbrúsa í Sanaa í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert