Blóðug átök blossuðu upp

Tveir mótmælendur voru skotnir til bana í Búrúndí í Afríku í gær. Mótmæli og átök sem þeim hafa fylgt hafa harðnað hratt síðustu klukkustundir. Mótmælendur vilja að forsetinn fari frá völdum en hann hefur tilkynnt að hann ætlaði sér að sitja sitt þriðja tímabil á valdastóli.

Í dag hafa mótmælin haldið áfram og til átak hefur komið milli mótmælenda og lögreglu. Mennirnir sem létust í gær voru þátttakendur í mótmælum sem lögreglan reyndi að leysa upp.

Óeirðir gusu upp í gær eftir að stjórnarflokkur landsins, CNDD-FDD, sem hefur verið sakaður um að hafa haft í hótunum við stjórnarandstöðuna, tilnefndu forsetann Pierre Nkurunziza sem sitt forsetaefni í kosningunum sem fram fara í júní.

Forsetinn er nú að ljúka sínu öðru kjörtímabili en hann var fyrst kosinn til valda árið 2005. Stjórnandstæðingar segja að tilnefning hans brjóti gegn stjórnarskrá landsins og Arusha-friðarsamkomulaginu sem batt endi á borgarastyrjöld í Búrúndi sem mörg hundruð þúsund manns létust í.

Í dag er mótmælt víða um landið en Búrundí er í Mið-Afríku. Ríkisstjórnin hefur bannað mótmæli og á sunnudag var skrúfað fyrir útsendingar stærstu óháðu útvarpsstöðvar landsins og stjórnendur hennar sakaðir um að hvetja til uppreisnar.

Herinn hefur tekið sér stöðu víðs vegar um höfuðborgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert