Gekk í hjónaband á dauðadeild

Michael Chan og Chinthu Sukumaran bræður mannanna ræða við fjölmiðla …
Michael Chan og Chinthu Sukumaran bræður mannanna ræða við fjölmiðla fyrir utan fangelsið í dag. AFP

Einn Ástralanna sem bíður aftöku í Indónesíu gekk að eiga unnustu sína í fangelsinu um helgina. Bróðir Andrew Chan staðfesti í samtali við fjölmiðla að brúðkaupið hafi farið fram í fangelsinu og að fjölskylda og vinir Chan hafi verið viðstaddir. Sky News segir frá þessu. 

Chan er haldið í fangelsi ásamt Myuran Sukumaran á fangaeyjunni Nusa­kambang­an. Þeir gætu verið teknir af lífi annað kvöld. Þeir eru meðal níu Ástrala sem eru í haldi á eyjunni vegna fíkniefnasmygls. Á laugardaginn var tilkynnt að þau verði tekin að lífi eftir 72 klukkustundir. Ásamt Chan og Sukumaran verða tekin af lífi menn frá Brasilíu og Nígeríu og kona frá Filippseyjum. 

Ástr­alsk­ir fjöl­miðlar birtu í dag mynd­ir af út­far­ar­stjóra und­ir­búa kist­ur og krossa fyr­ir Chan og Sukumaran en á þá hef­ur verið letruð dag­setn­ing­in 29. 04. 2015. Lögfræðingar mannanna segjast þó vongóðir um að indónesísk yfirvöld muni fresta aftökunum. 

Chan gekk að eiga unnustu sína Febyanti Herewila á laugardaginn en hún kemur frá Indónesíu. Að sögn bróður Chan áttu hjónin góðan dag í fangelsinu. „Vonandi mun forsetinn sýna samúð svo að þetta unga fólk geti haldið áfram með líf sitt. Þetta er í höndum forsetans,“ sagði bróðir Chan. Chan kynntist eiginkonu sinni fyrir nokkrum árum. Hún starfaði sem sjálfboðaliði í fangelsinu. 

Chan og Sukumaran voru handteknir á aðalflugvellinum á Balí árið 2005. Þau reyndu að smygla átta kílóum af heróíni til Ástralíu ásamt sjö öðrum Áströlum. Þeir eru einnig í varðhaldi á eyjunni.

Chan og Sukumaran, sem voru forsprakkar smyglsins, verða bundnir við viðarplanka og skotnir af tólf lögreglumönnum. Verður miðað á hjörtu mannanna en ef það drepur þá ekki verða þeir skotnir í höfuðið. Mennirnir hafa báðir óskað eftir því að andlegir leiðtogar muni eyða með þeim síðustu klukkustundunum. 

Yfirvöld í Ástralíu halda áfram að mótmæla aftökunum og halda því fram að það þurfi að rannsaka mögulega spillingu í réttarhöldunum yfir mönnunum. Yfirvöld í Indónesíu segja að Ástralar þurfi að sanna spillinguna og gagnrýna það að ásakanirnar séu aðeins að koma upp núna, tíu árum seinna. 

Forseti Indónesíu, Joko Widodo, hefur heitið því að dæmdum smyglurum verði ekki sýnd miskunn. 

Andrew Chan og Myuran Sukumaran
Andrew Chan og Myuran Sukumaran AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert