Kistur hinna dauðadæmdu undirbúnar

Áströlsk yfirvöld reyna nú allt til þess að koma í veg fyrir að tveir Ástralar verði teknir af lífi í Indónesíu en ástralskir fjölmiðlar birtu í dag myndir af útfararstjóra undirbúa kistur og krossa fyrir þá en á þá hefur verið letruð dagsetningin 29. 04. 2015. 

Tvímenningarnir Myuran Sukumaran og Andrew Chan verða væntanlega teknir af lífi fljótlega líkt og fleiri útlendir fíkniefnasmyglarar í Indónesíu.

Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, ræddi við starfsbróður sinn, Retno Marsudi, síðdegis í gær og forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, hefur ritað forseta Indónesíu, Joko Widodo, bréf þar sem hann ítrekar ósk sína um að aftökunum verði frestað. Bishop segir að ekki megi leiða þá fyrir aftökusveit á meðan ekki væri búið að ganga frá öllum lögformlegum atriðum.

Lögmenn þeirra séu að undirbúa að fara með málið fyrir stjórnarskrárdómstól Indónesíu. Bishop segir að eins sé verið að rannsaka hvort eitthvað sé hæft í ásökunum um  spillingu við réttarhöldin yfir tvímenningunum þegar þeir voru dæmdir til dauða á sínum tíma. 

Í dag birti Fairfax Media ásakanir um að dómararnir, sem dæmdu tvímenninganna til dauða árið 2006, hafi farið fram á að fá greiddar háar fjárhæðir gegn því að þeir yrðu dæmdir í minna en tuttugu ára fangelsi. Kemur fram að þeir hafi farið  fram á að fá greiddan rúman milljarð rúpía. 

Farifax Media vísar til ummæla lögmanns Ástralana á þessum tíma en hann segir að hætt hafi verið við samninginn vegna þess að stjórnvöld í Jakarta hafi krafist þess að þeir yrðu dæmdir til dauða.

Fjölskyldur Chan og Sukumaran eru komnar á fangaeyjuna Nusakambangan þar sem þeim er haldið. Hið sama á við um fjölskyldu Mary Jane Veloso, þernu frá Filippseyjum, sem einnig á að taka af lífi.

Í frétt Sydney Morning Herald kemur fram að saksóknari hafi greint ættingjum Chan og  Sukumarans frá því að þeir verði að yfirgefa Nusakambangan um miðjan dag á morgun og það verði í síðasta skipti sem þeir yfirgefi eyjuna.

Systir Veloso segir að fjölskyldan hafi grátbeðið um að henni yrði sýnd miskunn en  Mary Jane Veloso á tvo unga syni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert