Drónar notaðir til að finna flóttamenn?

Bandarískur hermaður með dróna af gerðinni ScanEagle.
Bandarískur hermaður með dróna af gerðinni ScanEagle. Wikipedia

Hugsanlega verða óvopnaðir drónar notaðir af breska sjóhernum til þess að finna skip og báta yfirfulla af flóttamönnum á leið frá Líbíu til Evrópu og koma þeim til aðstoðar. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Hugmyndir þess efnis eru til alvarlegrar skoðunar.

Fram kemur í fréttinni að drónar breska sjóhersins af gerðinni ScanEagle verði notaðir í þeim tilgangi ef af verður. Þeir yrðu þá sendir af stað frá herskipum og stýrt þaðan. Bresk stjórnvöld hafa þegar boðið fram herskipið HMS Bulwark vegna mikils fjölda flóttamanna sem reyna að komast til Evrópu auk tveggja minni eftirlitsskipa og þriggja þyrla af gerðinni Merlin.

Talið er að breska freigátan HMS Kent kunni að bætast í hópinn en hún er búin ScanEagle drónum. Freigátan er nú stödd á Persaflóa. Meira en 1750 flóttamenn hafa farist á leiðinni yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er þessu ári sem er þrjátíu sinnum fleiri en á sama tímabili í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert