Óttast að það versta endurtaki sig

AFP

Gengið var í skrokk á rúmlega fimmtugum manni af hópi manna þegar hann var að koma út úr bænahúsi gyðinga í  Seine-Saint-Denis hverfinu fyrir utan París. Maðurinn hélt að dagar hans væru taldir. 

Samkvæmt frétt Le Parisien og The Local er árásarmannanna leitað en maðurinn var að koma út úr Saint-Ouen bænahúsinu skömmu eftir hádegi á laugardag þegar maður á þrítugsaldri fór að atast í honum, kallandi hann skítugan gyðing ofl.

Í viðtali við Le Parisien segist maðurinn, sem hefur búið í hverfinu í fimmtán ár og rekur þar verslun, snéri sér við og bað manninn um að láta sig í friði þá gerði hann sér lítið fyrir og skallaði hann í andlitið. Lýsir fórnarlambið því hvernig hann hafi staðið þarna alblóðugur og reynt að verja sig. Þá bættust tveir menn við og spörkuðu þremenningarnir í hann og lömdu. Þegar einn þeirra dró upp hníf hafi hinir tveir hvatt hann til dáða og sagt honum að stinga gyðinginn. Fórnarlambinu tókst hins vegar að snúa vörn í sókn og reyndi að afvopna árásarmanninn og barði hann. Þegar fleira fólk kom að þá flúðu árásarmennirnir eftir að hafa sparkað í kvið hans. 

Maðurinn kærði árásina á sunnudag, þann sama dag og forseti Frakklands, François Hollande, varaði við því að ef ekki yrði lát á gyðingahatri og rasisma af öðru tagi þá gæti það versta endurtekið sig. Hollande lét þessi ummæli falla þegar hann stýrði minningarathöfn í Struthof í Alsace-héraði, einu útrýmingarbúðum nasista í Frakklandi á tímum seinni heimstyrjaldarinnar.

„Þekking á sögunni verndar okkur ekki gagnvart því versta... Gyðingahatur og rasismi er enn til staðar,“ sagði Hollande í Natzwiller, þar sem Struthof búðirnar voru. Alls voru 50 þúsund fangar í búðunum.

„Við verðum að grípa til aðgerða... til þess að vernda þá sem jafnvel verða fórnarlömb í dag,“ bætti Hollande við og minnti á þá þúsundir flóttamanna sem reyna að komast sjóleiðina yfir Miðjarðarhafið í þeirri von að öðlast betra líf í Evrópu.

AFP
Thorbjorn Jagland, Donald Tusk, Laimdota Straujuma, Francois Hollande, Frederique Neau-Dufour,Martin …
Thorbjorn Jagland, Donald Tusk, Laimdota Straujuma, Francois Hollande, Frederique Neau-Dufour,Martin Schulz AFP
Francois Hollande
Francois Hollande AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert