Reiðarslag fyrir efnahag fátæks lands

Fólk hefst við í tjaldbúðum í höfuðborginni Katmandú eftir að …
Fólk hefst við í tjaldbúðum í höfuðborginni Katmandú eftir að jarðskjálftinn grandaði heimilum þeirra á laugardag. AFP

Fyrir utan þær þúsundir manna sem staðfest er að hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir Nepal um helgina þá er sú eyðilegging sem hann olli reiðarslag fyrir efnahag landsins sem var fyrir eitt það fátækasta í Asíu. Talið er að kostnaðurinn við enduruppbyggingu geti numið fimm milljörðum dollara.

Um 3.500 manns að minnsta kosti eru taldir hafa farist í jarðskjálftanum sem var 7,8 stig að stærð. Stórir hlutar höfuðborgarinnar Katmandú eru rústir einar en skjálftinn er mestu náttúruhamfarir sem dunið hafa á Nepal í áttatíu ár. Vegir fóru í sundur, byggingar hrundu eins og spilaborgir og samskiptakerfi hafa lamast.

Horfur höfðu verið að batna í efnahagsmálum Nepals eftir áratugar langt borgarastríð en 16.000 manns féllu í því. Verg þjóðarframleiðsla jókst um 5,48% á milli ára í fyrra en hörmungarnar og sú uppbygging sem bíður þýðir mikið bakslag í efnahagsmálum. Það er meira en viðkvæmt hagkerfi landsins ræður við upp á eigin spýtur.

„Jarðskjálftinn í Nepal hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir hagkerfi Nepals, sem er afar fátækt land og hefur ákaflega takmarkaða getu til að fjármagna neyðaraðstoð og enduruppbyggingu upp á eigin spýtur,“ segir Rajiv Biswas, aðalhagfræðingur ráðgjafarfyrirtækisins IHS.

Langtímakostnaðurinn við uppbygginguna geti numið fimm milljörðum dollara en það sé um 20% af vergri þjóðarframleiðslu Nepals. Því sé brýn þörf fyrir alþjóðlega neyðaraðstoð, bæði til að glíma við afleiðingar jarðskjálftans og síðan efnahagslegu áhrifin síðar þegar kemur að uppbyggingunni.

Ein helsta tekjulind landsins er ferðamenn en 800.000 erlendir túristar komu til landsins árið 2013, fjölmargir þeirra göngugarpar sem klífa Everest-fjall. Nú eru höfuðborgin Katmandú hins vegar í rjúkandi rústir en Dharahara-turninn, eitt helsta kennileiti borgarinnar, er ein þeirra bygginga sem jarðskjálftinn grandaði.

Jarðskjálftinn olli einnig snjóflóði í Everest-fjalli sem átján manns fórust í. Mögulegt er að allar frekari göngur á fjallið verði stöðvaðar á þessu ári en með því missir Nepal mikilvægar tekjur, einmitt þegar landið þarf mest á þeim að halda.

Björgunarsveitarmenn frá Indlandi búa sig undir að halda til Nepal …
Björgunarsveitarmenn frá Indlandi búa sig undir að halda til Nepal til að aðstoða við leit og björgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert