Sagði af sér vegna ummæla um samkynhneigða

Hjónabönd samkynhneigðra vekja heitar tilfinningar hjá Norður-Írum.
Hjónabönd samkynhneigðra vekja heitar tilfinningar hjá Norður-Írum. AFP

Heilbrigðisráðherra heimastjórnarinnar á Norður-Írlandi sagði af sér í dag í kjölfar ummæla sem hann lét falla um að börn samkynhneigðra para væru í meiri hættu á að verða fyrir misnotkun eða vanrækslu. Lögreglan rannsakar einnig samskipti hans við samkynhneigða konu í kosningabaráttunni þar.

Jim Wells er sanntrúaður mótmælandi úr röðum Lýðræðisleg sambandsflokksins. Hann baðst afsökunar á því að hafa á kosningafundi í síðustu viku sagt að „staðreyndir sýna að fólk elur börn svo sannarlega ekki upp í samkynhneigðum samböndum“.

Hjónabönd samkynhneigðra eru mikið hitamál í Norður-Írlandi en það er eina landið innan Bretlands sem leyfir þau ekki og bannar fóstureyðingar. Nágrannarnir á Írlandi munu kjósa um að leyfa samkynhneigðum að gifta sig í þjóðaratkvæðagreiðslu í maí.

Kosningar fara fram á Norður-Írlandi í næstu viku og hafa réttindi samkynhneigðra verið rædd í aðdraganda þeirra. Stjórnmálamenn hafa hins vegar fram til þessa hafnað því að lögleiða hjónabönd þeirra. 

Dóttir samkynhneigðrar konu kvartaði til lögreglu en hún sagðir að móðir sín hafi komist í uppnám eftir orðaskipti sem áttu sér stað þegar Wells bankaði upp á hjá henni í kosningabaráttu sinni nýlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert