Tæplega þrjú þúsund nýir Danir

Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn.
Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Tæplega þrjú þúsund nýir Danir fögnuðu ákaft í gær er þeir voru boðnir velkomnir í athöfn í Kristjánsborgarhöll, en undanfarin tíu ár hafa þeir sem fá danskan ríkisborgararétt verið boðnir velkomnir við athöfn í danska þinghúsinu.

Alls fengu 2.967 danskan ríkisborgararétt í fyrra og var því fagnað á árlegri hátíð fyrir nýja ríkisborgara í gær. Fjölmargir mættu til athafnarinnar, þar á meðal forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, og þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum á þingi

Þingkonan Özlem Cekic, sem er fædd í Tyrklandi, segir í samtali við Ritzau-fréttastofuna að dagur nýrra ríkisborgara sé einn af bestu dögunum í Kristjánsborgarahöll. Fólk sé hamingjusamt og stolt. „Allir klæða sig upp á og fagna nýjum ríkisborgararétt. Nú eru þeir hluti af Danmörku og Danmörk hluti af þeim,“ segir Cekic.

Samkvæmt dönsku stjórnarskránni geta útlendingar aðeins fengið danskan ríkisborgararétt með lagasetningu. Tvisvar á ári, í apríl og október, er kynnt frumvarp á þingi með nöfnum þeirra sem hafa uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Samkvæmt frumvarpinu sem kynnt var fyrr í mánuðinum eru 3.314 nöfn á listanum, sem eru tvöfalt fleiri en í október í fyrra og hafa þeir aldrei verið svo margir síðan ríkisstjórn Thorning-Schmidt tók við völdum í september 2011. 

Frétt Jyllands Posten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert