Yfir 3.200 látnir

Að minnsta kosti 3.218 létust í jarðskjálftanum mikla í Nepal á laugardag. Yfir 6.500 eru slasaðir eftir skjálftann en tugir létust í nágrannalöndunum Kína og Indlandi.

Þúsundir sváfu á götum úti aðra nóttina í röð í höfuðborg Nepals, Katmandú, og rísa tjaldbúðir þar eins og gorkúlur fyrir þá sem misstu heimili sín eða þora hreinlega ekki heim vegna ótta við annan jarðskjálfta. 

BBC hefur eftir Rabi Srestha, sem sefur ásamt fjölskyldu sinni í vegkanti að þau eigi ekki aðra möguleika þar sem húsið sem þau búi í sé illa farið. „Regnið vætlar en hvað getum við annað gert?“

Veðrið hefur hins vegar batnað í dag og flytja þyrlur nú slasaða fjallgöngumenn úr grunnbúðum Everest.

Eins er unnið að því að hreinsa vegi svo hægt sé að senda björgunarsveitir af stað á þau svæði sem urðu verst úti, norðvestur af höfuðborginni.

Fjölmargir ferðamenn eru að koma sér frá Nepal eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið á laugardag. Meðal þeirra er Nýsjálendingurinn Michael Mackey og fjölskylda hans en þau líkt og þúsundir annarra voru í vorfríinu í Nepal. 

Mackey og fjölskylda fóru strax af stað á flugvöllinn eftir að skjálftinn reið yfir og vonast til þess að komast heim síðar í dag en þau höfðu verið þrjár vikur á ferðalagi í Nepal. Um 800 þúsund ferðamenn koma á ári hverju til Nepal, margir þeirra fjallgöngumenn sem meðal annars reyna við Everest eða eru á svæðinu í kringum Pokhara. Þaðan er farið hinar ýmsu leiðir á og í kringum Annapurna. 

Ekki er vitað hversu margir útlendingar fórust í jarðskjálftanum en að minnsta kosti átján fórust á Everest þegar snjóflóð fóru af stað í kjölfar skjálftans. 

Indverski herinn hefur flutt hátt í eitt þúsund Indverja á brott frá Nepal frá því á laugardag en utanríkisráðherra Indlands, S. Jaishankar, segir erfitt að áætla hversu margir Indverjar séu enn í Nepal.

Kínversk yfirvöld hafa þegar flutt yfir eitt þúsund Kínverja á brott og er stefnt að flutningi yfir 4 þúsund ferðamanna í dag og næstu daga.

Vitað er um tvo útlendinga sem fórust á Everest, tvo Bandaríkjamenn, lækni sem starfaði fyrir fjallaleiðsögumenn og framkvæmdastjóra hjá Google. Að minnsta kosti einn Japani fórst á Everest en yfir eitt þúsund Japanar starfa í Nepal. 

Ísraelsk yfirvöld ætla að flytja með flugi 25 nýbura sem staðgöngumæður í Nepal gengu með fyrir ísraelsk pör. Eins mun ísraelski herinn annast flutning Ísraela, um 700 manns, heim.

Hundruð Breta eru á ferðalagi í Nepal en ekki hafa borist tilkynningar um að einhver þeirra hafi látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert