Kennsla fellur niður í Baltimore

Frá Baltimore í gærkvöldi
Frá Baltimore í gærkvöldi AFP

Götur bandarísku borgarinnar Baltimore minna helst á stríðshrjáð svæði en í gærkvöldi brutust út óeirðir í borginni. Kveikt var í fjölda bygginga og bifreiða og eyðileggingin blasir víða við. Eyðileggingin er svo mikil að ekki verður hægt að halda uppi kennslu í skólum borgarinnar í dag.

„Of margir hafa kynslóðum saman byggt upp þessa borg til þess að hægt sé að leyfa óþokkum sem eru að reyna að eyðileggja það sem svo margir börðust fyrir að byggja upp,“ segir borgarstjórinn í Baltimore, Stephanie Rawlings-Blake, í viðtali við CNN.

Víða um borgina má sjá byggingar og bíla í ljósum logum en á annan tug fyrirtækja hafa orðið fyrir barðinu á fólki sem hefur farið ránshendi um borgina. Að minnsta kosti fimmtán lögreglumenn eru slasaðir, þar af sex alvarlega, að sögn lögreglustjóra Baltimore.

Óeirðirnar brutust út í kjölfar útfarar Freddie Gray sem lést af völdum áverka sem hann varð fyrir í haldi lögreglu. Fjölskylda hans fordæmir ofbeldið sem ríkir í borginni. „Ég vil að réttvísin nái fram að ganga fyrir son minn en ég er ekki sátt við það sem ég sé hér,“ sagði móðir hans við fréttamenn í gærkvöldi.

Hún segir að það sé rangt að beita öllu þessu ofbeldi og þetta sé ekki eitthvað sem sonur hennar gæti sætt sig við. 

Lögreglustjórinn, Anthony Batts, segir að mjög margir þeirra sem hafa farið ránshendi um borgina og beitt ofbeldi séu menntaskólanemar. Þeir hafi brotið niður vegartálma sem lögreglan hafi sett upp en á þriðja tug óeirðarskeggja hafa verið handteknir.

Ríkisstjórinn í Maryland, Larry Hogan, hefur lýst yfir neyðarástandi og virkjað þjóðvarðliðið. Borgarstjórinn í Baltimore segir að allt verði gert til þess að koma ró á í borginni á ný. Í kvöld verður sett útgöngubann frá klukkan 22 til 5 að morgni og gildir þetta í viku hið minnsta.

Að sögn lögreglu er að færast ró yfir borgina enda komin nótt. Batts segir að í flestum tilvikum séu það borgarbúar sjálfir sem séu að koma ró á en þrátt fyrir það séu enn einhverjir sem taka þátt í óeirðum, kveikja í húsum og bílum. Hann hvetur foreldra til þess að sýna ábyrgð á börnum sínum. 

Mótmælandi í Baltimore, blanda af mjólk og vatni sést renna …
Mótmælandi í Baltimore, blanda af mjólk og vatni sést renna niður líkama hans en hann hafði fengið piparúða í augun. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert