Óttast að 10 þúsund hafi farist

Óttast er að 10 þúsund hafi farist í jarðskjálftanum
Óttast er að 10 þúsund hafi farist í jarðskjálftanum AFP

Óttast er að allt að tíu þúsund hafi farist í jarðskjálftanum í Nepal á laugardag, að sögn forsætisráðherra landsins, Sushil Koirala. Vitað er að 4.310 létust og að tæplega átta þúsund slösuðust. Straumur Nepala er á leið til heimalandsins til að veita aðstoð en líf átta milljóna íbúa hefur raskast vegna hamfaranna. Það er um það bil helmingur þeirra sem búa á skjálftasvæðinu.

Nepalar sem eru búsettir í Indlandi eru margir á heimleið með rútum, flugvélum og lestum klyfjaðir mat og hjálpargögnum. En hjálparstofnanir hafa varað við því að það sé betra að senda gögn heldur en að óþjálfaðir sjálfboðaliðar komi til landsins þar sem algjör glundroði ríkir og því hætta á að sjálfboðaliðarnir flækist frekar fyrir en hitt. En það getur reynst þrautin þyngri að koma þeim skilaboðum til þeirra fjölmörgu sem bíða við landamærin með mat, teppi og lyf. 

Meðal þeirra er kaupsýslumaðurinn Ram Madhav en bæði tengdafjölskylda hans og ættingjar hans urðu illa úti í jarðskjálftanum. AFP-fréttastofan ræddi við hann á umferðarmiðstöðinni í Nýju-Delhí í morgun. „Ég vil aðstoða þau á hvaða hátt sem ég get,“ segir Madhav sem var með nokkrar töskur meðferðis fullar af hjálpargögnum og fatnaði.

Talið er að um þrjár milljónir Nepala starfi í Indlandi, meðal annars við þjónustustörf, akstur og byggingaframkvæmdir. Margir þeirra senda lungann af launum sínum heim þrátt fyrir lág laun, til þess að veita fjölskyldunni aðstoð.

Starfsmaður í sendiráði Nepals í Nýju-Delhí segir að fjölmargir hafi haft samband og viljað komast heim til Nepals og veita aðstoð. Því hefur verið ákveðið að fjölga lestarferðum tímabundið að landamærum Nepals. 

Hjálpargögn eru þegar byrjuð að berast til þeirra sem eiga um sárt að binda en Nepalar sem búa í útlöndum eru ekki tilbúnir til þess að bíða eftir því að ættingjar þeirra fái þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Margir þeirra efast einnig um bolmagn hjálparsamtaka til að veita þá aðstoð sem þarf að veita.

„Ég er með banana, þurrkaða ávexti og smákökur. Það er ekki mikið en nóg fyrir 50 manns til að þrauka í einn dag,“ segir D.R. Sharma sem er á umferðarmiðstöðinni í Nýju-Delhí. 

Ferðamenn fluttir á brott frá Nepal
Ferðamenn fluttir á brott frá Nepal AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert