Skutu viðvörunarskotum að mögulegum kafbáti

Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Frá Helsinki, höfuðborg Finnlands.

Finnski herinn skaut viðvörunarskotum að því sem hermenn hans töldu vera kafbát undan ströndum höfuðborgarinnar Helsinki í morgun. Ekki sást frekar til sjófarsins eftir að viðvörunarskotum var hleypt af samkvæmt upplýsingum hersins.

Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu kom fram að sjóherinn hafi komið auga á fyrirbæri í sjónum um hádegið að staðartíma í gær. Þá var það í Eystrasalti innan finnskrar lögsögu skammt undan ströndum Helsinki. Aftur sást til fyrirbærisins í nótt og skaut herinn þá viðvörunarskotum að fyrirbærinu.

Finnar hafa tilkynnt að þeir ætli að vinna nánar með hinum Skandínavíulöndunum í hernaðarmálum í kjölfar þess að Rússar hafa haft sig meira frammi í Eystrasalti. Löndin tvö deila 1.340 kílómetra löngum landamærum og hafa reynt að halda uppi góðum samskiptum frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Skammt er síðan sænski herinn stóð fyrir umfangsmikilli leit að mögulegum kafbáti sem vitni töldu sig hafa komið auga á í skerjagarðinum við Stokkhólm í október. Var því þá haldið fram að um rússneskan kafbát hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert