Bilað app seinkaði tugum flugferða

AFP

Bandaríska flugfélagið American Airlines neyddist til þess að seinka brottför fjölda farþegaþotna sinna í gærkvöldi vegna bilunar í appi í iPad-spjaldtölvum sem flugmenn félagsins nota til þess að undirbúa flugtak. Spjaldtölvurnar voru teknar í notkun árið 2013 en notkun þeirra þýðir að flugmenn þurfa ekki að burðast með 16 kíló af handbókum í pappírsformi um borð.

Bilunin í appinu þýddi hins vegar að farþegaþotur American Airlines á fjölmörgum stöðum gátu ekki farið í loftið þar sem flugmennirnir höfðu ekki aðgang að þeim nauðsynlegu gögnum sem var að finna í spjaldtölvunum. Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Guardian þar sem staðfest er af talsmanni flugfélagsins að þetta hafi gerst. Í sumum tilfellum hafi þotur þurft að fara aftur upp að flugstöðvum til þess að komast í netsamband og leysa málið.

Fram kemur í fréttinni að málið hafi valdið talsverðu raski á flugáætlun American Airlines og unnið hafi verið að því að bæta úr því og koma farþegum á áfangastað. Haft er eftir öðrum talsmanni flugfélagsins að bilunin hafi haft áhrif á nokkra tugi flugferða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert