Trufluð af berbrjósta femínistum

Berbrjósta femínistar trufluðu ræðu Marine Le Pen, fomanns frönsku Þjóðfylkingarinnar, í París í dag, þegar þeir heilsuðu að hætti Hitlers á svölum yfir ræðupalli leiðtogans. Um var að ræða liðsmenn samtakanna Femen, en fyrr um daginn höfðu tveir aðrir Femen-liðar gert tilraun til að koma í veg fyrir að Le Pen setti blómsveig á styttu Jóhönnu af Örk.

Í fyrra skiptið komu öryggisverðir Þjóðfylkingarinnar til bjargar en í seinna skiptið tókst femínistunum að slá Le Pen útaf laginu og það tók hana nokkrar mínútur að svara fyrir sig áður en hún hélt áfram.

„Það er undarlegt að fólk sem kallar sig femínista skuli trufla ræðu til heiðurs Jóhönnu af Örk,“ sagði leiðtoginn.

Konurnar sem um ræðir sögðu eftir á að stuðningsmenn flokksins sem viðstaddir voru ræðuna hefðu slegið til þeirra og sagði ein þeirra að þær hefðu afhjúpað „hið sanna fasíska andlit“ Þjóðfylkingarinnar.

Raunir Le Pen voru ekki eingöngu bundnar við hinar berbrjósta konur, heldur gerði faðir hennar og stofnandi flokksins tilraun til að stela sviðsljósinu með því að þramma á sviðið, við fögnuð viðstaddra.

Í dagskrá var ekki gert ráð fyrir að Jean-Marie Le Pen kæmi fram á sviði, en hann og dóttir hans hafa eldað grátt silfur á opinberum vettvangi síðustu misseri.

Þá kom einnig til átaka þegar stuðningsmenn flokksins réðust að sjónvapsmönnum á vegum France 5 og Canal+. Náðist myndband af því þegar einn Evrópuþingmanna flokksins sló fréttamann Canal+ með regnhlíf. Hélt hann því fram að sjónvarpsstöðin hefði verið að reyna að taka upp einkasamtöl hans með hljóðnema.

Forsætisráðherra landsins, Manuel Valls, fordæmdi uppákomuna á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert