Barn vonarinnar

Systkinin Soniya, tíu ára, og Sonies, 5 mánaða, fundust á …
Systkinin Soniya, tíu ára, og Sonies, 5 mánaða, fundust á lífi í rústum í Katmandú.

Sonies Awal er fimm mánaða snáði. Hann er kallaður barn vonar í Nepal enda fannst hann á lífi í rústum húsa um sólarhring eftir að jarðskjálftinn reið yfir.

Þegar móðir hans, Rasmila, var að ganga heim úr búðinni á laugardag fyrir viku fór jörðin að skjálfa. Hún horfði á húsið sitt hrynja til grunna. Undir brakinu lágu börnin hennar, Soniya, tíu ára, og Sonies, aðeins fimm mánaða gamall.

„Ég fór að öskra og bað nágrannana um hjálp,“ segir hún, í viðtali við CNN. Í fyrstu fannst fólki útilokað að börnin gætu hafa lifað af.

„Ég dofnaði upp. Ég heyrði ekkert, ég vissi ekki hvort börnin mín væru á lífi,“ segir hún. Eiginmaður hennar, Sham Awal var að vinna er jarðskjálftinn varð. Hann dreif sig heim og fór að róta í rústunum í leit að börnunum sínum. Nágrannar komu til hjálpar en vonbrigðin voru mikil, enginn virtist á lífi í rústunum.

„Ég var mjög vonlítil. Það heyrðist ekkert,“ segir móðirin. En svo tveimur tímum síðar gerðist hið óvænta: Soniya fannst á lífi. En drengurinn var enn ófundinn.

Nokkru síðar komu hermenn til að aðstoða við leitina. Þeir grófu í gegnum brakið en fundu ekkert. Skömmu síðar urðu þeir frá að hverfa til annarra björgunarstarfa. Faðirinn var einnig að missa vonina er hann heyrði allt í einu lágt hljóð. Barnsgrát. En þá var komin nótt og lítið hægt að gera. Foreldrarnir urðu því að bíða til morguns með björgunaraðgerðir. Og enn heyrðist barnið gráta. Hermennirnir höfðu einnig snúið aftur og héldu áfram að grafa. Loks, 22 klukkustundum eftir að jarðskjálftinn varð, sá móðirin hermann draga barnið hennar upp úr rústunum. Andlit hans var hulið ryki. En hann var á lífi.

Mynd var tekin af þessu augnabliki og hefur hún orðið að nokkurs konar tákni um von í Nepal. Vitað er að um 7.000 manns létust í skjálftanum og margra er enn saknað.

Litli drengurinn var fluttur á sjúkrahús og þar kom í ljós að hann var heill á húfi, aðeins marinn og með skurð á lærinu. „Hann byrjaði að brosa,“ segir Rasmila um það þegar hún fékk hann loks í fangið.

Awal-fjölskyldan er eins og margar aðrar fjölskyldur í Nepal, heimilislaus. Þá missti hún ástvini í skjálftanum. 

Þessi mynd af björgun litla drengsins er orðin tákn um …
Þessi mynd af björgun litla drengsins er orðin tákn um von í Nepal.
Sonies litli ásamt móður sinni á sjúkrahúsinu. Hann brosir og …
Sonies litli ásamt móður sinni á sjúkrahúsinu. Hann brosir og hlær.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert