Gíslarnir illa hirtir og í losti

Hluti þeirra 700 kvenna og barna sem nígeríski herinn bjargaði …
Hluti þeirra 700 kvenna og barna sem nígeríski herinn bjargaði úr klóm Boko Haram í aðgerðum frá þriðjudegi til fimmtudags í síðustu viku. AFP

Tæplega 300 konur og börn voru í dag flutt í hjálparbúðir á vegum Neyðarstofnunar Nígeríu (NEMA). Hópurinn er hluti þeirra 700 kvenna og barna sem hefur verið bjargað úr haldi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram á undanförnum dögum.

Í tilkynningu sem Neyðarstofnun Nígeríu sendi frá sér í dag segir að gíslarnir séu allir mjög máttfarnir og í áfalli. Hópurinn var fluttur til Yola þar sem skráðar voru niður upplýsingar um hvern og einn.

„Vopnuð sérsveit nígeríska hersins, með aðsetur í Yola, hefur afhent Neyðarstofnun Nígeríu 275 konur og börn sem bjargað var úr ánauð í Sambisa-skógi,“ sagði í tilkynningunni.

Hjálpa þeim að snúa aftur til fyrra lífs

Muhammad Sani Sidi, hjá NEMA, sagði að gripið hefði verið til nauðsynlegra ráðstafana til þess að gíslarnir gætu snúið aftur til fyrra lífs. Skráðar voru niður upplýsingar um hvern og einn; nafn þeirra, aldur og fæðingarstað. Átta konur og 15 börn sem særðust í björgunaraðgerðunum voru flutt til aðhlynningar á spítala.

„Flest þeirra eru þreytt og í miklu losti. Þau voru illa hirt, af útliti þeirra að dæma höfðu þau ekki farið í bað í fleiri daga,“ sagði hann. Hópurinn fékk mat, moskítóflugnanet, sápu og hreinsiefni ásamt svefnaðstöðu við komuna í búðirnar.

Frá þriðjudegi til fimmtudags í síðustu viku bjargaði nígeríski herinn um 700 gíslum úr haldi Boko Haram en þeim var haldið í herbúðum samtakanna í Sambisa-skógi. Yfirmenn hersins hafa heitið því að aðgerðum verði haldið áfram og að aðrir gíslar sem eru í haldi Boko Haram verði frelsaðir.

Samkvæmt tölum Amnesty International hafa hryðjuverkasamtökin Boko Haram rænt um 2 þúsund konum og börnum frá ársbyrjun 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert