Syngjandi prestur vekur heimsathygli

Írski presturinn Ray Kelly hefur vakið heimsathygli fyrir söng sinn. Ferill þessa 62 ára gamla prests komst óvænt á flug fyrir ári þegar plata sem hann gaf út rokseldist, auk þess sem 42 milljónir hafa hlustað á útgáfu hans af Hallelujah hans á Youtube.

Kelly vakti athygli þegar hann söng Hallelujah, lag eftir Leonard Cohen, með nýjum texta í brúðkaupi. Myndbandið vakti strax mikla athygli og dreifðist hratt um netið.

„Eftir það fór þetta bara vaxandi. 42 milljónir hafa horft á myndbandið og nærri 35.000 áhorf bætast við daglega,“ segir Kelly við AFP. Fyrr en varði var Kelly orðinn reglulegur gestur í ýmsum spjallþáttum. „Þetta er algjör klikkun,“ segir Kelly. „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast. Ég var að íhuga að setjast í helgan stein, en allt í einu horfi ég fram á feril sem tónlistarmaður.“

Presturinn syngjandi, Ray Kelly.
Presturinn syngjandi, Ray Kelly. AFP

Kelly er prestur í bænum Oldcastle, rólegum bæ í sveitum Írlands. Eileen O'Reilly, eitt sóknarbarna Kelly, sagðist hin ánægðasta yfir árangri prestsins. „Við vissum öll að séra Kelly gæti sungið. Þegar hann syngur þá verður einhvern veginn önnur stemning,“ sagði hún í samtali við fréttastofuna AFP.

Á áttunda áratugnum, áður en Kelly gerðist prestur, hlaut hann nokkra söngþjálfun og tók reglulega þátt í hæfileikakeppnum á krám í Dublin. Hann tók meðal annars þátt í uppsetningu á söngleiknum Jesus Christ Superstar.

Allt frá því að myndbandið hans komst á flug hefur hann komið víða við. Hann tók meðal annars þátt í skrúðgöngu í tengslum við hátíðarhöldin á degi heilags Patreks í New York. Kelly segir að biskupinn hans hafi sýnt honum mikinn skilning og hvatt hann til dáða.

„Fólk segir mér að þetta sé frábært fyrir kirkjuna og það er góð tilbreyting að fólk heyri góðar fréttir af kirkjunni eftir allt það neikvæða sem hefur gerst,“ segir Kelly. Undanfarin ár hefur kaþólska kirkjan legið undir ámæli fyrir að leyna alvarlegum brotum presta hennar.

Séra Ray Kelly og hundarnir hans tveir, Biddy og Buddy.
Séra Ray Kelly og hundarnir hans tveir, Biddy og Buddy. AFP

Þrátt fyrir gott gengi plötu hans, þá vill Kelly í raun lítið með peninga hafa. „Ég er enn venjulegur sóknarprestur í lítilli kirkju á Írlandi. Ég er mjög ánægður þar og vil halda því áfram.“ Hann vonast til að geta hjálpað ungu frændfólki sínu að greiða af húsnæðislánum þeirra, en mörg þeirra komu illa út úr kreppunni á Írlandi. Þá vill hann einni gefa peninga til góðgerðamála.

„Margt frændfólk mitt er stórskuldugt eftir að hafa keypt hús í uppsveiflunni og á núna ekkert í húsinu sínu. Ef Guð lofar get ég kannski hjálpað þeim,“ segir Kelly.

„Hvað sjálfan mig varðar, þá bíður mín enginn Lamborghini fyrir utan kirkjuna.“

Lengst til vinstri er Margaret Raw, sem kom alla leið …
Lengst til vinstri er Margaret Raw, sem kom alla leið frá Englandi til að hlýða á söng Kelly. AFP
Kelly við messu.
Kelly við messu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert