Þúsundir mótmæltu lögregluofbeldi í Ísrael

Þúsundir manna mótmæltu í dag lögregluofbeldi eftir að myndband var …
Þúsundir manna mótmæltu í dag lögregluofbeldi eftir að myndband var birt sem sýndi tvo lögreglumenn beita hermann af eþíópískum uppruna ofbeldi. AFP

Ísraelska lögreglan notaði í dag stuðsprengjur til að dreifa mannfjöldanum á mótmælum eþíópískra Ísraela sem fóru fram í höfuðborg landsins, Tel Aviv. Var þar mótmælt ofbeldi lögreglu og mismunun.

Einhverjir mótmælendur köstuðu lausamunum; steinum, flöskum og stólum af nærliggjandi veitingahúsum, í lögregluna eftir að hafa gert tilraun til þess að komast inn í ráðhús borgarinnar.

Óeirðarlögregla notaði stuðsprengjur, vatnsbyssur og táragas í baráttunni við mótmælendur með það að markmiði að rýma svæðið í kringum ráðhúsið. Fréttaritari AFP-fréttaveitunnar sagði að mótmælendur hefðu þó alltaf snúið aftur. 23 lögregluþjónar og sjö mótmælendur slösuðust í átökunum samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum.

Ráðherra almannaöryggis í Ísrael, Yitzhak Aharonovitch, sagði óeirðirnar hafa verið erfiðar viðureignar þar sem enginn einn leiðtogi hafi leitt mótmælin.

„Það er enginn til þess að ræða við,“ sagði hann við fjölmiðla en fjöldi mótmælenda voru handteknir að sögn talsmanns lögreglunnar.

Mótmælin eru einn angi mótmæla gegn lögregluofbeldi í Jerúsalem í vikunni. Þau mótmæli fylgdu í kjölfar þess að myndband var birt þar sem mátti sjá tvö lögreglumenn berja óeinkennisklæddan ísraelskan hermann af eþíópískum uppruna.

Fleiri ísraelskir ríkisborgarar gengu til liðs við mótmælendurna í dag. Hrópuðu þeir og héldu á skiltum þar sem á stóð „ofbeldisfulla lögregluþjóna á að fangelsa“ og „mannréttindi eiga um alla að gilda“.

Þá hélt hluti mótmælenda höndum sínum á lofti í kross, líkt og þeir væru í handjárnum, þegar hópurinn gekk um stræti Tel Aviv. Áður höfðu mótmælendur stöðvað Ayalon hraðbrautina á háannatíma sem olli miklum umferðartöfum á einni helstu hraðbraut Ísraels. Lögregla þurfti að fjarlægja mótmælendurna með afli.

„Sem svartur maður verð ég að mótmæla“

AFP-fréttastofan ræddi við einn mótmælendanna, hinn 34 ára gamla Eddie Maconen. „Sem svartur maður verð ég að mótmæla í dag,“ sagði hann í samtali við AFP áður en átökin við ráðhúsið hófust.

„Ég hef aldrei orðið fyrir barðinu á ofbeldi lögreglumanna en lögregluofbeldi er beint gegn mínu samfélagi,“ sagði Maconen sem flutti til Ísrael þriggja ára að aldri. Hann sagði að mótmælendur vildu að réttað yrði yfir lögregluþjónum sem hafa beitt ofbeldi og að í framhaldi af því yrði tekið á samfélagslegum ójöfnuði.

„Fyrst tökum við á lögregluofbeldinu, og svo getum við tekið á öðrum málum sem eru í ólestri hjá stjórnvaldinu. Þar sem traðkað er á Eþíópíumönnum,“ sagði hann.

Lögregluyfirvöld í Tel Aviv áætla að um 3 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum á sama tíma og fjölmiðlar greina frá því að um 10 þúsund manns hafi mótmælt, eftir því sem skipuleggjendur mótmælanna halda fram.

135 þúsund eþíópískir gyðingar í Ísrael

Um það leyti sem mótmælagangan var að hefjast sendi forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu, frá sér yfirlýsingu. Þar sagðist hann ætla að hitta Damas Pakada, hermanninn sem var barinn, og aðra fulltrúa eþíópíska samfélagsins á morgun, mánudag.

„Það verður litið á allar hliðar málsins en það er ekki rúm fyrir ofbeldi og aðra ókyrrð,“ sagði Netanyahu. 

Í kjölfar þess að myndbandið af lögregluþjónunum tveimur birtist hafa lögregluyfirvöld heitið því að gripið verði til róttækra aðgerða gegn lögregluofbeldi og lögreglumönnum sem hafa beitt eþíópíska samfélagið ofbeldi.

Yfir 135 þúsund eþíópískir gyðingar búa í Ísrael og fluttust þeir þangað í tveimur bylgjum: árin 1984 og 1991. Hópurinn hefur átt erfitt með að fóta sig í Ísrael þrátt fyrir mikinn fjárstuðning frá yfirvöldum.

Frá mótmælunum.
Frá mótmælunum. AFP
Mótmælendur lokuðu fyrir umferð á einni helstu hraðbraut Ísraels.
Mótmælendur lokuðu fyrir umferð á einni helstu hraðbraut Ísraels. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert