Fangi myrtur í klefa sínum

Fanginn fannst látinn í klefa sínum í morgun. Mynd úr …
Fanginn fannst látinn í klefa sínum í morgun. Mynd úr safni. AFP

Fangi var myrtur í Wandsworth fangelsinu í Lundúnum í morgun. Lögregla var kölluð til að fangelsinu í morgun eftir að tilkynnt var um að karlkyns fangi á sjötugsaldri hafi fundist látinn í klefa sínum.

Sky News segir frá þessu.

Fangi á fimmtugsaldri var handtekinn en hann er grunaður um að bera ábyrgð á dauða mannsins. Hann er nú í haldi lögreglu.

Wandsworth fangelsið er í suður Lundúnum. Það er stærsta fangelsi Bretlands og eitt af stærstu fangelsum Vestur-Evrópu. Pláss er í fangelsinu fyrir um 1,800 fanga. 

Frá árinu 1989 hafa staðið yfir víðtækar endurnýjungar á fangelsinu og hefur það einnig verið nútímavætt töluvert síðustu 25 árin. 

En í skýrslu sem var birt árið 2011 var aðstæðum í fangelsinu lýst sem „lítillækkandi“, „óöruggum“ og „fyrir neðan það sem hægt er að kalla sæmandi“.

Talskona fangelsisins staðfesti það í samtali við fjölmiðla að fanginn hafi verið úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi klukkan 8:52 í morgun. Rannsókn lögreglu stendur nú yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert