Felldi tár í réttarsalnum

Dzhokhar Tsarnaev er 21 árs gamall.
Dzhokhar Tsarnaev er 21 árs gamall. AFP

Dzhokhar Tsarnaev sem fundinn var sekur fyrir að hafa  myrt þrjá og sært 264 þegar sprengj­ur sprungu við mark Bost­on-maraþons­ins í apríl 2013, felldi tár í réttarsalnum í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem Tsarnaev sýnir tilfinningar við réttarhöldin sem hafa staðið yfir í margar vikur.

Í síðasta mánuði var Tsarnaev dæmdur sekur og á nú aðeins eftir að ákveða refsingu hans. Hann mun annað hvort hljóta dauðarefsingu fyrir glæp sinn eða lífstíðarfangelsi. 

Í dómsalnum í dag felldi Tsarnaev tár þegar að frávita frænka hans var fjarlægð úr salnum. Frænkan átti að bera vitni en gat það ekki vegna uppnáms.

Í síðustu viku hófu verjendur Tsarnaev að kynna sönnunargögn til þess að reyna að bjarga lífi hans. Það stóð til að 64 ára gömul frænka hans, Patimat Suleimanova myndi bera vitni en hún kom sérstaklega til Boston frá Rússlandi.

Samkvæmt frétt AFP gat konan aðeins sagt dómsalnum nafnið sitt, aldur og hvaðan hún kom áður en hún brast í grát og varð óskiljanleg. Í kjölfarið var henni fylgt út úr salnum.

Þá mátti sjá Tsarnaev sem er 21 árs, ná sér í þurrku og þurrka í burtu tár. Hann er bandarískur ríkisborgari en kemur frá Tsjet­sjen­íu.

Vitnisburður fjögurra kvenna úr fjölskyldu Tsaranev fór fram í dag. Þær komu til Bandaríkjanna fyrir um tíu dögum síðan.

Tvær frænkur Tsarnaev frá Dagestan í suður Rússlandi báru vitni. Önnur þeirra lýsti Tsarnaev sem góðhjörtuðum dreng sem grét þegar hann sá Disney myndina The Lion King.

„Hann var mjög blíður, mjög hlýr. Góðmennska hans gerði alla aðra blíða,“ sagði Raisat Suleimanova, en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur og býr nálægt Moskvu. Hún er 35 ára gömul og var vitnisburður hennar þýddur frá rússnesku yfir í ensku af túlki.

Suleimanova lýsti rótlausri æsku Tsarnaev en foreldrar hans fluttu oft. Fjölskyldan bjó Kirgisistan, Tsjet­sjen­íu og Dagestan.

Tsarnaev og bróðir hans Tamerlam, sem var skotinn til bana af lögreglu nokkrum dögum eftir sprengjuárásina, bókstaflega lifðu í ferðatöskum og skiptu oft um skóla og vini.

Suleimanova sagði einnig frá lífi móður drengjanna, Zubeidat Tsarnaeva, sem elskaði tísku og skartgripi áður en hún flutti til Bandaríkjanna. Kviðdómnum var sýnd mynd af konunni, í loðpels, þröngum fötum og með sólgleraugu. En þegar að Suleimanova sá frænku sína aftur árið 2010 klæddist hún hijab sem er hefðbundinn klæðnaður kvenna innan íslam sem hylur höfuð og háls.

„Það var áfall því ég ég þekkti manneskjuna sem hún var einu sinni,“ sagði Suleimanova og bætti við að hennar fjölskylda hafi að mestu leyti yfirgefið íslamska trú.

Systir hennar, Naida, var einnig vitni. „Hann var mjög sætur, mjög góður og mjög blíður. Hann var alltaf brosandi,“ sagði hún í dag. Hún sagði einnig að Tsarnaev hafi elskað stóra bróður sinn.  

„Það er hefð í okkar fjölskyldu, alltaf hlusta á eldra systkini þitt og fylgja fordæmi hans,“ sagði hún.

Verjendur Tsarnaev hafa reynt að draga upp mynd af Tamerlan sem heilanum á bakvið árásirnar og haldið því fram að hann hafi ráðskast með yngri bróður sinn.

Naida lýsti einnig yfir áhyggjum sínum vegna breytts útlits móður mannanna og sagði það óeðlilegt fyrir konurnar í fjölskyldunni. Þegar að hún var spurð út í skoðanir Tamerlan á meðferð á Múslímum og óskum hans um að sjá íslamskt kalífadæmi sagði hún einfaldlega: „Foreldrar okkar kenndu okkur ekki þessa hluti.“

Jafnframt báru tvær aðrar frænkur Tsarnaev vitni sem og tvær vinkonur hans úr menntaskóla. Búist er við því að verjendur Tsarnaev muni taka sér tvær vikur í vitnisburð vina og ættingja hans.

Nabisat Suleimanova og Naida Suleimanova koma til dómshússins í dag.
Nabisat Suleimanova og Naida Suleimanova koma til dómshússins í dag. AFP
Verjendur Tsarnaev ganga inn í réttarsalinn í dag.
Verjendur Tsarnaev ganga inn í réttarsalinn í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert