Flóttafólk gekk fimmtíu kílómetra

Þjóðarsorg var í Níger eftir árásirnar í síðustu viku.
Þjóðarsorg var í Níger eftir árásirnar í síðustu viku. AFP

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín á eyjum í stöðuvatninu Tsjad í suðaustur Níger síðustu daga vegna Boko Haram. Hryðjuverkasamtökin réðust á eyjurnar í apríl og fjölmargir létu lífið.

„Rúmlega fimm þúsund manns hafa þegar náð til N'Guigmi,“ sagði starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í samtali við AFP, en N'Guigmi er bær nálægt stöðuvatninu og landamærum Níger og Tsjad.

Jafnframt er búist við að 11,500 manns komist til bæjarins á næstu dögum. Stjórnvöld í Níger hafa hvatt íbúa á eyjunum til þess að yfirgefa þær í síðasta lagi í dag. Að minnsta kosti 74 létu lífið í árásum samtakanna á eyjurnar í síðustu viku. Það er mesta mannfall í Níger síðan að yfirvöld ákváðu að nígerski herinn myndi taka þátt í baráttunni gegn Boko Haram. 

Að sögn Moussa Tchangari sem rekur góðgerðarsamtök á svæðinu hafa þúsundir karla, kvenna og barna þurft að ganga í rúmlega fimmtíu kílómetra til þess að komast til N'Guigmi. 

„Þegar þau komu voru þau örmagna, svöng og þyrst,“ sagði Tchangari sem gagnrýndi það að yfirvöld hafi ekki verið reiðubúin fyrir komu flóttamannanna. Yfirvöld á svæðinu hafa neitað þeim ásökunum. 

„Allt gengur mjög vel,“ sagði ríkisstjóri Diffa í samtali við AFP. Heimildarmaður AFP sem starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar sagði að yfirvöld væru farin að dreifa neyðarbúnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert