Hætt við leiðangra á Everest

AFP

Hætt hefur verið við alla leiðangra á Everest í ár vegna hættu á frekari jarðskjálftum. Er þetta annað árið í röð sem hætta hefur þurft við leiðangra á tindinn vegna náttúruhamfara.

Í fyrra fórust 16 nepalskir leiðsögumenn í snjóflóði á fjallinu og í ár fórust 18 í snjóflóðum sem féllu eftir að jarðskjálfti upp á 7,8 stig reið yfir Nepal.

Tveir Íslendingar voru í grunnbúðum Everest þegar jarðskjálftinn reið yfir, þau Ingólfur Axelsson og Vilborg Arna Gissurardóttir. Þau eru bæði á heimleið frá Nepal en þetta er annað árið í röð sem þau hafa þurft að hætta við Everestleiðangra sína. 

Dawa Steven Sherpa, sem starfar hjá Asian Trekkers í Katmandú, segir í viðtali við Guardian að vegna eftirskjálftanna sé ekki hægt að halda leiðöngrum á hæsta fjall heims áfram. Enda sé vart hægt að bjóða upp á ferðir þangað núna þar sem bæði reipi og stigar eru horfin.

Vilborg Arna flýgur í dag frá Katmandú til London en Ingólfur er í Katmandú og fer þaðan eftir tvo daga og heldur heim á leið.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert