Lögreglan gagnrýnd fyrir upplýsingagjöf

AFP

Ástralska alríkislögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að láta indónesísku lögregluna vita af glæpamönnum sem voru handteknir fyrir fíkniefnasmygl á Balí árið 2005. Þeir voru teknir af lífi nýverið fyrir smyglið.

Mennirnir voru handteknir á Balí á grundvelli upplýsinga sem fengnar voru frá áströlsku lögreglunni um starfsemi glæpagengisins Bali Nine.

Ástralska lögreglan segir að ekki hafi verið hægt að handtaka tvímenningana, sem stýrðu fíkniefnasmyglinu, áður en þeir fóru frá Ástralíu til Indónesíu. 

Andrew Chan og Myuran Sukumaran voru teknir af lífi af indónesískri aftökusveit á miðvikudag þrátt fyrir mikinn þrýsting frá áströlskum stjórnvöldum um að lífi þeirra yrði þyrmt.

Yfirmenn áströlsku alríkislögreglunnar þurfa á næstunni að svara spurningum þingsins um ástæður þess að indónesísk yfirvöld voru látin vita af tvímenningunum þrátt fyrir að ljóst væri að það gæti þýtt að þeir yrðu teknir af lífi, segir í frétt BBC.

Yfirmaður lögreglunnar sagði á fréttamannafundi í dag að ef þeir hefðu haft nægar upplýsingar til þess að handtaka liðsmenn Bali Nine áður en þeir yfirgáfu Ástralíu hefði það verið gert. Á þessum tíma hafi ekki verið vitað hversu margir væru í glæpagenginu né heldur hvaða eiturlyfjum það smyglaði. Því hafi verið haft samband við starfsbræður í Indónesíu.

Að sögn Andrews Colvins, sem er yfirmaður áströlsku alríkislögreglunnar (AFP), er ekki rétt að lögreglan hafi fyrst frétt af starfsemi Bali Nine frá föður eins þeirra heldur hafi AFP vitað af starfsemi þeirra. Hann viðurkennir að einn þeirra sem unnu að rannsókninni á Bali Nine hafi óskað eftir því að hætta í rannsókninni vegna þess að hann var ekki sáttur við að lögreglan tæki þá áhættu að liðsmenn glæpagengisins yrðu dæmdir til dauða.

Átta karlar og ein kona voru handtekin í apríl 2005 á flugvellinum og á hóteli á Balí eftir upplýsingar frá AFP. Alls voru þau með 8,3 kg af heróíni á sér sem smygla átti til Ástralíu.

Það var niðurstaða dómara árið 2006 að  Andrew Chan og Myuran Sukumaran hefðu skipulagt smyglið, fengið hina til liðs við sig og greitt kostnað þeirra. Þeir voru dæmdir til dauða og teknir af lífi 29. apríl sl. Hin sjö afplána 20 ára til lífstíðar dóma. Hluti þeirra hafði verið dæmdur til dauða en dauðarefsingu breytt í lífstíðardóma fyrir áfrýjunardómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert