Móðir henti barni sínu í á

Hamilton Street brúin.
Hamilton Street brúin. Af Google Maps

Lög­regl­an í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hef­ur hand­tekið konu sem vitni segja að hafi hent eins árs gömlu barni sínu út í ána Lehigh á sunnudag. Lög­regl­an hef­ur staðfest frá­sögn vitnanna.

Að sögn vitna var hin 19 ára gamla Johnesha Perry á göngu með barnavagn á Hamilton Street-brúnni þegar hún stoppaði, tók barn sitt úr vagninum og henti því fram af brúnni áður en hún stökk sjálf. 

Lögreglumönnum tókst að bjarga barninu, eins árs gömlum dreng, úr ánni og endurlífga hann. Konan kom sér hins vegar sjálf upp úr ánni áður en hún féll í yfirlið á bakkanum.

Mæðginin voru flutt á sjúkrahús og var móðirin fljót að jafna sig, en drengurinn er enn í lífshættu.

Perry stendur nú frammi fyrir ákærum fyrir tilraun til manndráps, vanrækslu og að stofna barni í hættu. Henni er haldið í gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert