Skothríð tengd skopteikningasamkeppni

Geert Wilders ásamt liðsmönnum SWAT
Geert Wilders ásamt liðsmönnum SWAT AFP

Tveir vopnaðir menn voru skotnir til bana af öryggisvörðum í gærkvöldi fyrir utan hús þar sem samkeppni um skopteikningar af Múhameð spámanni fór fram í Texas. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu rannsakar sprengjusveit lögreglunnar nú bifreið tvímenninganna. 

Samtökin American Freedom Defense Initiative (AFDI) skipulögðu samkeppnina sem var haldin í úthverfi Dallas og meðal þeirra sem þar komu fram var hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders, sem hefur barist hart gegn múslímum. 

Að sögn lögreglu óku mennirnir að ráðstefnumiðstöðinni í Garland og hófu að skjóta á öryggisvörð. Lögreglan í Garland skaut báða mennina í kjölfarið. Öryggisvörðurinn særðist en er ekki í lífshættu.

Wilder, sem hefur lengi átt í illdeilum við íslamista vegna öfgaskoðana sinna, hafði nýverið lokið ræðu sinni á ráðstefnunni þegar árásin átti sér stað. Í tölvupósti sem Wilders sendi AFP-fréttastofunni segist hann vera í áfalli. Hann hafði lokið við að flytja hálftíma ræðu um skopteikningar, íslam og málfrelsi þegar mennirnir hófu skothríð. 

Hann segir þetta árás á frelsi allra og tekur fram að hann sé öruggur í skjóli lögreglu.

Ekki hefur fengist staðfest hverjir tvímenningarnir eru en SITE, sem vakta miðla íslamskra öfgasamtaka, segja að liðsmenn Ríkis íslams hafi lýst því yfir á Twitter að tveir liðsmenn samtakanna hafi átt hlut að máli.

Vísar SITE til færslna á Twitter, sem settar eru inn af liðsmanni hryðjuverkasamtakanna sem nefnist Abu Hussain AlBritani, sem SITE segir að sé breski hryðjuverkamaðurinn Junaid Hussain, þar sem fram kemur að tveir bræðra þeirra hafi hafið skothríð á sýningu tengdri skopteikningum af Múhameð spámanni í Texas.

„Þeir í Texas héldu að þeir væru öryggir gagnvart hermönnum Ríkis íslams,“ skrifar hann meðal annars á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert