Hafði verið grunaður um hryðjuverk

AFP

Tvímenningarnir sem voru skotnir til bana af lögreglu í Texas á sunnudagskvöldið hétu Elton Simpson og Nadir Soofi. Þeir bjuggu saman og voru báðir rúmlega þrítugir. Smpson fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm 2011 á grundvelli hryðjuverkalaga.

Samkvæmt frétt The Los Angeles Times skutu tvímenningarnir á öryggisvörð við Curtis Culwell-miðstöðinni við skóla í Garland, útborg Dallas, á sunnudag. Það var sami lögreglumaðurinn sem felldi báða árásarmennina. 

AFDI, samtök sem efnt höfðu til verðlaunasamkeppni um skopteikningar af Múhameð spámanni til að leggja áherslu á tjáningarfrelsið, voru á fundi í skólanum á sunnudag. Var Geert Wilders, umdeildur hollenskur stjórnmálamaður, sem gagnrýnt hefur íslam harkalega, einn ræðumanna en var nýfarinn. Liðsmenn Ríkis íslams, IS, eru sagðir hafa hyllt hina látnu.

„Guð er mikill! Tveir af bræðrum vorum hafa hafið skothríð við listsýningu um spámanninn Múhameð í Texas,“ sagði á twitter-síðu sem talin er tengjast IS, á sunnudag. Síðan notaði myllumerkið texasattack, rétt áður en árásin var gerð í Garland. Hugsanlegt er að Simpson hafi sjálfur notað síðuna. „Hnífarnir hafa verið brýndir, bráðum munum við fara út á göturnar ykkar og færa ykkur dauða og slátrun!“ voru fyrstu skilaboðin á síðunni.

Lögreglan hefur ekki nafngreint árásarmennina en það hafa fjölmargir bandarískir fjölmiðlar gert. Samkvæmt LA Times og CNN bjuggu þeir saman í íbúð í Phoenix, Arizona og birti CNN myndskeið í gær sem sýndi alríkislögreglumenn (FBI) gera húsleit þar.

Samkvæmt dómsskjölum var Simpson dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 2011 eftir að birtar voru hljóðupptökur þar sem liðsmaður FBI ræðir við Simpson þar sem sá síðarnefndi talar um að fara til Sómalíu og ganga til liðs við bræður þeirra og heyja heilagt stríð.

Saksóknara tókst ekki að sanna að Simpson hafi framið gegn hryðjuverkalögum en sannað þótti að hann hefði logið að lögreglu þegar hann neitaði því að hafa rætt mögulega ferð til Sómalíu.

Faðir Simpsons, Dunston, segir í samtali við ABC News að sonur hans, sem starfaði hjá tannlækni, hefði einfaldlega valið rangt. 

„Við erum Bandaríkjamenn og við trúum á Bandaríkin,“ segir Dunston Simpson. „Það sem sonur minn gerði kastar rýrð á fjölskyldu mína.“

Greint frá nafni byssumannsins

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert